Þriðja grein erfið fyrir Íslendingana

Björgvin Karl Guðmundsson er sjötti á heimsleikunum í crossfit 2017.
Björgvin Karl Guðmundsson er sjötti á heimsleikunum í crossfit 2017. Ljósmynd/CrossFit Games

Björgvin Karl Guðmundsson er í þriðja sæti í karlaflokki á heimsleikunum í crossfit að loknum þremur keppnisgreinum. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í því sjötta  í kvennaflokki.

Keppt var í upphífingum og snörun í þriðju keppnisgreininni seint í gærkvöldi og reyndist hún Íslendingunum óþægur ljár í þúfu. Björgvin Karl varð í ellefta sæti í greininni og Ragnheiður Sara í því tólfta.

Katrín Tanja Davíðsdóttir, sem á titil að verja,  varð í 24. sæti í greininni en hún er í áttunda sæti í kvennaflokki í heildarstigakeppninni.

Annie Mist Þórisdóttir, varð fimmtánda í greininni, og er hún í tíunda sæti í heildarstigakeppninni.

Þuríður Erla Helgadóttir lenti í 16. sæti í greininni og er hún jafnframt í 16. sæti í heildarkeppninni.  

Í liðakeppninni eru íslensku liðin Crossfit XY og Crossfit Reykjavík í 21. og 22. sæti eftir þrjár keppnisgreinar.

Heimsleikarnir í crossfit halda áfram eftir hádegi í dag og fyrst verður keppt í þrautabraut.

Hægt er að fylgjast með leikunum í beinni og allar nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu og samskiptamiðlum leikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert