„Íslenska fólkið mun ávallt eiga hjá okkur hjartastað“

Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni á Klambratúni.
Abrahim og Hanyie Maleki í afmælisveislunni á Klambratúni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Orð geta ekki lýst því hvernig mér líður með ykkar rausn og gæsku sem ég og dóttir mín höfum aldrei upplifað áður,“ segir Abrahim Maleki, faðir hinnar 11 ára gömlu Hanyie Maleki, í myndbandi þar sem feðginin þakka fyrir sig.

Í síðustu viku mættu hátt í 300 manns í afmælisveislu Hanyie, sem ekki verður 12 ára fyrr en í október, en sökum þess að til stendur að senda þau úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, var blásið til veislu á Klambratúni í vikunni. Það var draumur Hanyie að halda upp á afmælið sitt á Íslandi.

Hanyie var himinlifandi með veisluna. Ótalmargir mættu og héldu upp á afmælið með henni auk þess sem fjöldi fólks gaf henni gjafir en hún fékk meðal annars iPhone og samtals um 600 þúsund krónur sem lagðar höfðu verið inn á sérstakan reikning fyrir Hanyie.

Feðginin eru hrærð af þakklæti og senda frá sér hlýja kveðju í myndbandi sem sjá má hér að neðan. „Ísland og íslenska fólkið mun ávallt eiga hjá okkur hjartastað,“ segir Abrahim. „Takk fyrir,“ segir svo Hanyie á hnökralausri íslensku að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert