Samtals hafa 20 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á síðastliðinn sólarhring. Nokkuð hefur verið um fíkniefnamál en í tilkynningu frá lögreglu segir að fíkniefni hafi fundist á víðavangi í kringum tjaldsvæði.
Mestur erill var á og við Flúðir þar sem mikill fjöldi fólks dvelur yfir helgina. Talsvert var um ágreining og pústra einstaklinga á milli og virtist ölvun mikil, segir í tilkynningunni.
Umferð er mikil og þétt á köflum en hefur gengið greiðlega utan hefðbundinna tafa á álagstímum við Hveragerði og Selfoss. Fjögur umferðaróhöpp urðu þar sem þurfti liðsinni lögreglu en ökumenn og farþegar sluppu án teljandi meiðsla. Þá komu tvö heimilsofbeldismál inn á borð lögreglunnar sem vinnur að rannsókn þeirra.