„Flugvélarnar sveimuðu yfir, eins og varpfugl þegar skip pípir nálægt vestfirsku bjargi og við urðum fegnir þegar við komum það langt til hafs, að bresku herskipin gátu farið að hjálpa okkur. Þetta gekk eiginlega allt furðu vel – miklu betur en við hefði mátt búast, því að meðan við lágum í Dunkirk vorum við eiginlega varnarlitlir.“
Þannig lýsir Jón Sigurðsson, vélstjóri frá Alviðru í Dýrafirði, aðkomu sinni á brottflutningi breska hersins frá Dunkirk vorið 1940 og fjallað er um í samnefndri kvikmynd eftir Christopher Nolan sem nú er í bíóhúsum. Jón var að ræða við blaðamann tímaritsins Fálkans í Noregi árið 1950, þegar orðin féllu en annars mun hann alla tíð hafa verið fámáll um aðgerðina. Hann var yfirvélstjóri á norska farskipinu Neptun sem statt var í Dunkirk og sæmdu Bretar Jón heiðursmerki í kjölfarið.
Heldur vildi vélstjórinn tala um annan atburð, sem varð við Ameríkuströnd í síðari heimsstyrjöldinni. Þá voru þeir með skipið fullt af sprengiefni og öðrum óþverra, þar á meðal voru gassprengjur á þilfarinu. Farmurinn þótti svo hættulegur að skipið fékk ekki að sigla í „konvoy“ og hafði því ekki samflot neinna skipa. Eina nóttina tekur Jón eftir því, er hann kemur á þilfarið, að farið er að rjúka úr einni sprengjunni á þilfarinu. Háseti einn nærstaddur vildi ekki aðhafast neitt fyrr en hann hefði talað við skipstjóra eða stýrimann, en það fannst Jóni tímatöf og kom sprengjunni þegar fyrir borð, því að líklega hefði hvorki skipstjóri né stýrimaður orðið til viðtals ef sprengjan hefði legið þarna mínútu lengur. Þó að hún gæti ekki sökkt skipi ein og sér, þá hefði hún kveikt í farminum, og þá hefði skipið sundrast í smáagnir.
Fyrir þetta snarræði sitt var Jón sæmdur heiðursmerki af Bandaríkjastjórn. Hann hlaut sumsé bæði viðurkenningu frá hendi Winstons Churchills og Franklins D. Roosevelts um dagana. Þá hengdu norsk stjórnvöld í tvígang á hann heiðursmerki.
Úthöfin voru að vonum öruggari að stríði loknu en Jón hinn víðförli minnti þó á að hættusvæðin væru enn þá til árið 1950. „Helvítis tundurduflin eru eins og launsátirnar voru í gamla daga. Maður á sér einskis ills von.“
Nánar er sagt frá Jóni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.