Tíu fíkniefnamál á Flúðum

Um tíu fíkniefnamál hafa komið upp á Flúðum síðan á fimmtudaginn en þar fara fram hátíðahöld um helgina. Þá hefur nokkuð verið um ágrein­ing og pústra milli ein­stak­linga á Flúðum að sögn lögreglu og hefur umferð um umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi verið þung.

„Það er búið að vera þar um helgina heilmikið eftirlit og við erum með fíkniefnateymið og hund,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is. „Ætli það séu ekki um 10 fíkniefnamál komin upp síðan á fimmtudaginn.“

Spurður um slagsmál og ólæti á tjaldsvæðinu á Flúðum segir Sveinn að svo virðist sem fréttir um slíkt hafi verið eitthvað ýktar. „Það voru einhverjir pústrar þarna í morgun en svo var það bara búið þegar lögreglan kom á staðinn,“ segir Sveinn spurður um málið.

Röðin náði langleiðina að Hveragerði

Þá hefur umferð verið þung í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og leggur lögregla mikla áherslu á umferðareftirlit um helgina.

„Hún gengur ágætlega en hún er ofboðslega þung í kringum Selfoss og það er röð bara vestur frá Selfossi alveg gríðarleg. Síðasta klukkutíma þá var röðin alveg langleiðina vestur að Hveragerði,“ útskýrir Sveinn. „En hún mjatlast í rólegheitum, þetta er bara spurning um að gefa sér tíma og vera slakur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert