Fimm kynferðisbrotamál hafa komið upp um helgina, og þar af þrjú tengd útihátíðum. Þetta staðfestir Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala.
Hrönn segir að ekki hafi öll málin komið inn til neyðarmóttökunnar, en hún hafi fengið upplýsingar um þau. Ekki fást upplýsingar að svo stöddu hvar á landinu brotin voru framin.
Um er að ræða fleiri brot en komu upp um verslunarmannahelgina á síðasta ári, en þá var eitt brot tengt útihátíð að sögn Hrannar.
Metfjöldi mála á einum mánuði kom á borð neyðarmóttökunnar í júlí, þegar tuttugu og átta manns leituðu þangað. Samtals hefur 41 einstaklingur leitað til neyðarmóttökunnar í júní og júlí, og 110 það sem af er ári. Í fyrra leituðu fleiri en nokkru sinni á neyðarmóttökuna, en þá voru 169 komur skráðar.
Í viðtali við mbl.is í síðustu viku sagðist Hrönn halda að ástæða fjölgunarinnar væri að þolendur leiti í auknum mæli á neyðarmóttöku, en ekki aukning í brotum.
Þá sagði hún skömmina ekki eiga að liggja hjá brotaþola heldur geranda. „Það er ekki eins og neinn bjóði upp á að láta brjóta á sér kynferðislega og fókusinn verður að vera meiri á gerendur og af hverju þeir brjóti á öðrum.“