Allt tiltækt lið lögreglu á Flúðum

Frá Flúðum
Frá Flúðum mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nóttin var annasöm hjá lögreglu á Suðurlandi. Fjölmörg mál komu inn á borð lögreglu og tengdust þau flest ölvun eða öðrum vímuefnum.

Um 10 fíkniefnamál komu til kasta lögreglu þar af nokkur þar sem hald var lagt á umtalsvert magn fíkniefna sem grunur liggur á að hafi verið ætluð til sölu. 

Þrír voru kærðir fyrir ölvun við akstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. 
Ein líkamsárás var kærð til lögreglu þar sem grunur liggur á að eggvopni hafi verið beitt gagnvart þolanda.

Ósjálfbjarga fólki komið til aðstoðar

Um tíma var allt tiltækt lið lögreglu á starfsstöðum á Selfossi og Hvolsvelli í verkefnum á Flúðum þar sem mikill mannfjöldi gistir á tjaldsvæðum. Ölvun og fíkniefnaneysla var nokkuð áberandi meðal gesta og hafði lögregla allnokkur afskipti af ósjálfbjarga einstaklingum sem og einstaklingum í annarlegu ástandi.

Talsvert var um óspektir og háreisti á tjaldsvæðinu sem og áflog og voru miklar annir hjá lögreglumönnum við að stilla til friðar á tjaldsvæðum og fyrirbyggja að uppúr syði meðal gesta.

Eftir nóttina gista fjórir einstaklingar fangageymslur á Selfossi, segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert