Er þetta símtalið?

Gunnar Lárus og Anna Sigrún urðu fjögurra manna fjölskylda í …
Gunnar Lárus og Anna Sigrún urðu fjögurra manna fjölskylda í vor þegar þau fengu í fangið tveggja ára tvíbura frá Tékklandi, Óskar Þór og Katrínu Þóru. Ásdís Ásgeirsdóttir

Þau Anna Sigrún og Gunnar Lárus sofa ekki mikið út á næstunni en hafa ekki áhyggjur af því. Draumur þeirra um að eignast börn rættist heldur betur í vor þegar þau ættleiddu tékknesku tvíburana Katrínu Þóru og Óskar Þór sem dafna vel hjá foreldrum sínum.

Í Reykjavíkurmaraþoni hlaupa þau hjónin tíu kílómetra fyrir Íslenska ættleiðingu, en þau segja að án hennar væru þau ekki fjögurra manna fjölskylda í dag.

Ættleiðing er valkostur

Anna Sigrún og Gunnar Lárus kynntust þegar hún var tvítug og hann 25 ára. „Ég kynntist honum þar sem hann leigði með kærasta vinkonu minnar og við urðum par nánast korteri seinna. Það var eiginlega ást við fyrstu sýn,“ segir hún og hlær.

Óskar Þór er glaður og kátur tveggja ára drengur sem …
Óskar Þór er glaður og kátur tveggja ára drengur sem unir sér vel í fanginu á móður sinni. Ásdís Ásgeirsdóttir

Árin liðu og þegar átti að stækka fjölskylduna varð ljóst að Anna Sigrún yrði ekki ólétt. „Við sáum það fljótt, við fórum ekki í neinar meðferðir eða slíkt en það var alveg augljóst og við sáum að við yrðum að fara einhverja aðra leið. Og þegar við ákváðum að fara að gera eitthvað í því sáum við að ættleiðing væri eitthvað fyrir okkur. Það var bara þannig. Það eru mjög margir sem halda að þetta verði allt að koma í ákveðinni röð, að maður verði fyrst að prófa og reyna, síðan fara í læknisfræðilegar meðferðir og svo sé ættleiðing síðasta úrræðið. Það er ekki þannig, þetta er einn af möguleikunum. Sem betur fer eru þeir margir,“ segir Anna Sigrún.

Hún segist ekki hafa íhugað að reyna glasafrjóvgun. „Nei, það kostar mikið, er mikið álag á sál og líkama og ekkert er öruggt. Við höfum staðið saman í gegnum sambandið og vildum standa jafnt í gegnum þetta. Glasafrjóvgun reynir alltaf svo mikið á pör; annar aðilinn þarf að fara í gegnum erfiðar meðferðir og hinn stendur eiginlega bjargarlaus á kantinum. Ég hef aldrei haft þessa þörf fyrir að ganga með barnið, eins og ég veit að margar konur hafa og vilja þess vegna prófa læknismeðferðir. Svo er fólk líka upptekið af blóðtengslum en við vorum ekki mjög upptekin af þeim,“ segir Anna Sigrún og bætir við að hún hafi fylgst með ættleiðingu lítils frænda og séð hvernig það gekk fyrir sig. „Við finnum það líka í dag, að svona átti þetta að vera.“

Sett í „blekklessupróf“

Hjónin ákváðu að snúa sér til Íslenskrar ættleiðingar og hefja ferlið að fá að ættleiða barn. „Fyrst þarf að fá forsamþykki á Íslandi og ákveða hvaða land maður velur. Löndin sem voru í boði og voru alveg opin voru Tékkland, Kína og Tógó og við völdum Tékkland. Við sáum að það var hægt að sækja um systkini í Tékklandi og það fyrsta sem Gunni sagði var: Þá þurfum við ekki að gera þetta aftur,“ segir hún og hlær. „Við hugsuðum að það væri erfitt að fá systkini en líka gaman að þau hafi hvort annað og hafi þessa tengingu. Við vorum tilbúin til að fara upp í hærri aldur en tveggja ára og alveg upp í fimm ára. Það er óalgengara hér á Íslandi að það séu eldri börn ættleidd, þó að það þekkist alveg t.d. frá Tékklandi.“

Katrín Þóra litla er mikil partýbomba að sögn móður hennar, …
Katrín Þóra litla er mikil partýbomba að sögn móður hennar, Önnu Sigrúnar. Ásdís Ásgeirsdóttir

Forsamþykkið var veitt haustið 2014, innan við hálfu ári frá umsókninni, en Anna Sigrún segir að ferlið geti tekið ár í dag. Næst þurfti að senda umsóknina til Tékklands og þá tók við gagnasöfnun, ítarlegar læknisrannsóknir og heimsóknir til sálfræðinga. 

„Við fórum í blekklessupróf! Tékkland er held ég eina landið sem enn notar það í þessu ferli. Mér fannst það mjög fyndið, og skemmtilegt, en út úr því kom skýrsla sem lýsti okkur nákvæmlega,“ segir hún og hlær.
„Tuttugusta apríl árið 2015 fáum við svo samþykki í Tékklandi. Og þá var í raun ekkert sem hægt var að gera annað en að bíða.“

„Hvernig sæki ég að þér?“

Biðin var á enda hinn 1. febrúar 2017 þegar loks var hringt með tíðindin. „Við fengum svo símtal. Kristinn hjá Íslenskri ættleiðingu hringdi í hádeginu. Ég var sofandi; það var í síðasta skiptið sem ég svaf út sennilega næstu átján árin,“ segir hún og skellihlær. „Þá hringdi hann og ég fékk skrítna tilfinningu þegar ég sá Íslenska ættleiðingu á símanum,“ segir hún og útskýrir að auðvitað hafi hún oft áður fengið símtöl þaðan varðandi ferlið. Í þetta sinn var það öðruvísi. „Ég svaraði og hann sagði: Sæl, hvernig sæki ég að þér? Og ég var einhvern tímann búin að heyra að þetta hefði hann sagt svona áður,“ segir hún og segir hann hafa beðið hana að bíða augnablik og svo kom á biðtónlist. Þá var hann að hringja í Gunnar og tengja þau þrjú í hópsímtal. Hún segist ekki hafa komið upp orði og hún horfði á manninn sinn og símann til skiptis og hann hafi spurt hana hvað væri að. „Ég gat ekki sagt neitt. Svo byrjaði síminn hans að hringja. Og ég fór bara að hágrenja,“ segir Anna Sigrún og fær gleðitár í augun við tilhugsunina og blaðamaður með.
Við tók gleðihróp í símann til Kristins. „Við erum hérna saman, er þetta símtalið?“ segist hún hafa hrópað í símann.
„Þetta er mesti tilfinningarússíbani sem við höfum farið í gegnum,“ segir hún. „Og hann sagði: Já, þetta er símtalið.“
Eftirvæntingin var mikil að vita hvaða barn eða börn ættu eftir að verða þeirra. „Og af því við vorum búin að sækja um systkini upp að fimm ára héldum við kannski að við myndum fá þriggja til fimm ára börn. En mamma var búin að segja við mig nokkrum sinnum, sem er svo fyndið af því að ég trúi ekki á neitt svona: Mér finnst bara eins og þið eigið eftir að eignast tvíbura! Ég sagði henni að hætta að segja svona, ég tryði ekki á neitt slíkt. En hún sagði að sér liði eins og við ættum eftir að eignast unga tvíbura. En við vildum ekki byggja upp of miklar vonir,“ útskýrir Anna Sigrún.

Hágrét allan daginn

Úr svefnherberginu heyrist í lítilli barnsrödd. Anna Sigrún gengur þar inn og segir: „Ertu vaknaður, ástin mín?“ Hún kemur út með lítinn úfinn snáða með stór dökk augu sem stara syfjuleg á blaðamann. Óskar Þór er þar kominn og stuttu síðar vaknar systir hans, Katrín Þóra. „Óggar gáta,“ segir sú stutta og er að segja móður sinni að Óskar sé að gráta.
Gunnar tekur börnin og hún heldur áfram með söguna. Við erum stödd nefnilega í miðju símtali.

„Og hvað og hvað!?“ segist hún hafa spurt Kristin. „Þetta eru tvíburar, sagði hann og við spurðum hve gamlir. Hann sagði þau fædd 25. júní 2015, sem var líka miklu yngra en við bjuggumst við. Ég var hágrátandi allt símtalið og restina af deginum,“ segir Anna Sigrún.
Stuttu síðar fengu þau send gögn en engar myndir strax en tengingin kemur um leið og maður sér myndir, að sögn Önnu Sigrúnar. „Við sáum að það var allt í góðu með þessar upplýsingar og fengum þá myndirnar sendar næst,“ segir Anna Sigrún og útskýrir að um leið og þau sáu myndir voru þetta orðin börnin þeirra.

Tvíburarnir Óskar Þór og Katrín Þóra hafa aðlagast vel lífinu …
Tvíburarnir Óskar Þór og Katrín Þóra hafa aðlagast vel lífinu á Íslandi en þau bjuggu fyrstu tvö árin á barnaheimili í Tékklandi. Ásdís Ásgeirsdóttir


„Við héldum að við myndum þá fara út seint í mars en nokkrum dögum síðar fengum við annað símtal þar sem okkur var tjáð að við mættum fara út og hitta þau 21. febrúar.“


Rosalega skrítin tilfinning


Þau héldu af stað til Tékklands og þurftu að skila þar inn gögnum til viðeigandi yfirvalda og hinn 20. febrúar fóru þau að skoða bygginguna þar sem barnaheimilið var. „Við stóðum þar lengi fyrir utan og það var rosalega erfitt að vita af þeim þarna inni og geta ekki hitt þau. Tengingin kemur einhvern veginn strax, við vorum búin að fá sendar fleiri myndir og höfðum náð að senda þeim pakka sem innihélt líka myndir af okkur. Þau voru búin að ná að sofa með myndirnar af okkur í nokkra daga. Daginn eftir komum við á barnaheimilið og þurftum að byrja á að fara á fund fyrst. Það var dálítið erfitt að bíða.“
Geturðu lýst því þegar þið sáuð börnin fyrst?
„Þau voru inni í einu herbergi og ein fóstra með þeim og hún fór strax fram. Við komum inn og sálfræðingur barnaheimilisins með. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari tilfinningu! Þeir sem hafa ættleitt og líka eignast barn náttúrulega segja flestir þetta vera sömu tilfinningu. Aðstæðurnar eru bara ólíkar. Þetta er rosalega skrítið, líka af því að við erum búin að vera að bíða eftir þeim, og síðustu vikur eftir nákvæmlega þessum börnum. En þau vita ekkert hver við erum. Þannig að við þurftum að færa okkur rólega að þeim. Gáfum þeim dót sem þeim fannst spennandi. Ég hugsa að það hafi liðið tíu mínútur, þá voru þau komin í fangið á okkur.“

Og fannst þér strax að þetta væru börnin þín? „Já, það er bara svoleiðis,“ segir hún og brosir. „Okkur báðum. Og það var hræðilegt að fara og skilja þau eftir þegar þau þurftu að fara að leggja sig. En þau voru í aðlögunarferli og þetta er hugsað mikið út frá börnunum. Þau höfðu það gott þar sem þau voru. Við vorum þarna í fjóra daga en á fjórða degi fengu þau að koma með okkur en við leigðum íbúð í þessum bæ. Þá vorum við búin að prófa að gefa þeim að borða, fara með þeim út og baða þau en þau voru sápuböðuð á hverjum einasta degi,“ segir hún og hlær. „Það er kannski ekki alveg svona strangt lengur.“ 
Var engin hræðsla, hugsuðuð þið ekkert: Hvað erum við að koma okkur út í?
„Jú, jú, guð minn almáttugur, það er ennþá! Við erum með tveggja ára tvíbura!“ segir hún og skellihlær. „Sem betur fer eru þau bara yndisleg, eins og börn eru. Og það gengur alveg ótrúlega vel með þau, það er bara svoleiðis.“

Fjölskyldan býr á Reyðarfirði þar sem foreldrarnir starfa hjá Alcoa.
Fjölskyldan býr á Reyðarfirði þar sem foreldrarnir starfa hjá Alcoa. Ásdís Ásgeirsdóttir

Þau dvöldu í bænum í fjóra daga til viðbótar og fengu þá leyfi til að fara til borgarinnar þar sem dómsvaldið er og tók þá við nokkurra vikna bið.
„Það er gert ráð fyrir að maður þurfi að vera allt upp í sex vikur úti en við vorum rétt rúmlega fimm,“ segir hún og komu þau til Íslands í lok mars. Þau dvöldu í Reykjavík í nokkra daga og fóru svo keyrandi heim til Reyðarfjarðar. Hún segir það hafa verið tilfinningaríkt og mikinn létti að koma með þau heim. Einhvern veginn hafi það verið þá alveg öruggt að þau ættu þessi börn. „Það var dásamlegt að koma heim með þau.“
Ferðin heim gekk vel. „Það gekk mjög vel, þau voru eins og alvanir ferðalangar, sem þau voru alls ekki, það var nánast þeirra fyrsta bílferð þarna með okkur. Þau höfðu búið á barnaheimilinu alla sína ævi,“ segir Anna Sigrún og segist hún vita söguna á bak við blóðforeldra barnanna. „Það er erfið en falleg saga. Mikil væntumþykja. Aðstæðurnar voru bara erfiðar.“

Hún er algjör partíbomba

Nú eru liðnir fimm mánuðir síðan Anna Sigrún og Gunnar Lárus urðu foreldrar. Börnin hafa aðlagast vel og virðast alveg hafa gleymt tékkneskunni. Íslenskan er strax orðin þeirra móðurmál og Katrín Þóra litla bendir blaðamanni á fallegar buxur með myndum á. „Svona!“ segir hún.

„Í síðustu viku prófaði ég að segja tékknesku nöfn þeirra, en það voru engin viðbrögð, en við byrjuðum strax að kalla þau íslensku nöfnunum. Þau virðast hafa gleymt tungumálinu,“ segir Anna Sigrún.
„Það hefur mest komið á óvart hvað þetta hefur gengið vel. Þau sofa vel og eru mikið rútínufólk. Þau eru bæði mjög ákveðin. Hann þarfnast okkar meira en hún. Hann heldur sig aðeins til hlés í fjölmenni en finnst gaman að búa til hávaða. Hún er algjör partíbomba, vill hafa athygli fólks á sér. Henni finnst það mjög skemmtilegt en kemur alltaf til okkar að fá mömmu- eða pabbaknús á milli.“

Það má spyrja mig

Anna Sigrún segist ánægð með Íslenska ættleiðingu. „Mín upplifun var mjög góð. Þetta er félagið okkar og þess vegna ætlum við að hlaupa tíu kílómetra fyrir þau, í annað skipti. Það er rosalega margt sem maður þarf að fara í gegnum, pappírsvinna og fleira. Þetta er mjög mikilvægt félag. Og ég vil minna fólk á að þetta er ein leið til þess að eignast barn. Ekki síðasti valkosturinn eins og svo margir halda. Margir hafa sagt við mig að þeir héldu að maður yrði að prófa allt annað fyrst. Það er fullt af fólki sem er að hugleiða þetta og heldur að þetta sé flóknara en það er. Þetta er ekkert rosalega flókið. Biðin er sennilega leiðinlegust en okkur fannst allt ferlið spennandi og fórum jákvætt út í þetta. Ég mæli með að fólk sem er að skoða þetta fari á námskeið hjá ÍÆ og eftir það veistu alveg hvort þetta er leiðin fyrir þig,“ segir hún.
„Bara það að hafa samband við félagið er stórt skref og kannski vill fólk vita ýmislegt án þess að stíga það skref og það má alveg spyrja mig. Ég sagði öllum strax að við værum í þessu ferli og allir vissu af þessu. Við viljum að fólk geti spurt okkur og fengið hreinskilin svör,“ segir Anna Sigrún sem vill gjarnan deila reynslu sinni með öðrum í svipuðum hugleiðingum. Íslensk ættleiðing er svo félagið sem sér um að láta drauminn rætast. „Við værum ekki fjölskylda ef það væri ekki fyrir þau.“


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert