Birgitta Haukdal komin á Þjóðhátíð eftir 10 ára fjarveru

Birgitta Haukdal er mætt á sviðið á þjóðhátíð eftir 10 …
Birgitta Haukdal er mætt á sviðið á þjóðhátíð eftir 10 ára hlé. mbl.is/Ófeigur

Söngkonan Birgitta Haukdal er mætt á Þjóðhátíð í fyrsta skipti í 10 ár. Birgitta hefur ekki setið auðum höndum þó hún hafi minnkað sönginn síðustu ár. Hún finnur fyrir aukinni pressu á hljómsveitina Írafár að koma saman aftur. 

Kom síðast 2007

„Síðast þegar ég var á Þjóðhátíð var ég með Stuðmönnum, hvað var það 2007 eða 2008? Það var 2007 sennilega, ég man það bara ekki alveg,“ segir Birgitta og hlær. Hún kemur nú fram ásamt hljómsveitinni Albatross.

„Þjóðhátíðarnefnd hefur samband við mig þar sem þau vilja fá nokkra listamenn saman á tónleika og svo er Albatross að spila undir. Ég hef ekki spilað með þeim áður en við æfðum saman og þeir eru rosalega flottir spilarar og gaman að spila með þeim,“ segir söngkonan geðþekka þegar blaðamaður náði tali af henni í Herjólfsdal í dag.

Kemur Írafár saman aftur?

Hvernig finnst Birgittu að vera komin aftur á Þjóðhátíð í Eyjum? „Mér finnst það hrikalega skemmtilegt og ég er búin að hlakka svakalega til. Það er orðið ótrúlega langt síðan ég kom og ég bara breyttist svolítið í ungling aftur,“ segir Birgitta og hlær. „Ég fékk alveg kitl í magann, þetta er náttúrulega æðisleg hátíð og ég tala nú ekki um þegar veðrið er svona, þá er þetta alveg geggjað,“ segir Birgitta.

Birgitta steig á svið á þjóðhátíð í ár.
Birgitta steig á svið á þjóðhátíð í ár. mbl.is/Ófeigur

Birgitta hefur upp á síðkastið fundið fyrir aukinni pressu á hljómsveitina Írafár að koma saman aftur. Það gleður eflaust marga að heyra að það er möguleiki á að það gerist á næstunni. „Við erum ekki alveg svona búin að finna rétta mómentið en það fer vonandi að koma að því. Það verður þá eitthvað mjög vel valið,“ segir Birgitta og brosir.

Syngur, skrifar og kennir

Birgitta hefur haft í nógu að snúast síðustu ár en hún hefur minnkað það að koma fram og syngja. „Ég kem ekki mikið fram en ég er alltaf að syngja. Ég vel mér svolítið gigg,“ segir Birgitta. Einnig hefur hún nú gefið út fjórar barnabækur og er von á tveimur í viðbót fyrir jól í þeirri seríu. „Svo fór ég til Danmerkur í söngkennaranám og ég kenni söng líka,“ segir Birgitta. 

„Ég er í allskonar verkefnum, mjög ólíkum en skemmtilegum. Hvort sem ég er að syngja, skrifa eða kenna,“ segir Birgitta að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert