Tuttugu teknir fyrir ölvunarakstur

Það er vænlegast fyrir ökumenn sem koma af þjóðhátíð að …
Það er vænlegast fyrir ökumenn sem koma af þjóðhátíð að blása fyrst áður en haldið er af stað. Mynd úr safni.

Lögreglan á Suðurlandi hefur tekið um tuttugu ökumenn fyrir ölvunarakstur það sem af er degi, þar af 14 við Landeyjahöfn. Að öðru leyti hefur umferð um Suðurland gengið vel og ekkert óhapp komið upp. Þetta segir Sveinn Rúnar Kristjánsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Traffíkin gengur mjög vel. Umferðarþunginn er eins og á góðum sunnudegi, en gengur mjög vel,“ segir Sveinn og bætir við að þótt margir séu á leið til höfuðborgarsvæðisins hafi ekki enn orðið tappar. Segir hann að umferðin komi í bylgjum en að búast megi við meiri umferð þegar líði á daginn, sérstaklega þegar nær dragi Reykjavík.

Mikið eftirlit hefur verið við Landeyjahöfn og fá ökumenn sem þaðan fara að blása. „Við höfum stoppað hvern einasta bíl sem hefur farið hérna úr Landeyjahöfn og það eru fjórtán ölvaðir ökumenn komnir, síðan Herjólfur sigldi fyrstu ferð í nótt. Fólk er ekki að hvíla sig nóg og leggja of snemma af stað. Eitthvað að vanmeta það.“

Segir Sveinn ölvunaraksturinn sérstaklega svekkjandi í ljósi þess að lögreglan hafi boðið upp á blástur á bílastæðinu við höfnina. „Þannig að það ætti enginn að fara af stað nema í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert