Tvö kynferðisbrot komu upp í Eyjum

Frá Þjóðhátíð
Frá Þjóðhátíð mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tvö kynferðisbrot komu upp í tengslum við þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina. Áður hafði verið greint frá öðru þeirra, en lögreglan í Vestmannaeyjum greinir í dag frá því að brotin hafi verið tvö. Í báðum tilvikum þekktust aðilar málsins og eftir skýrslutöku hefur meintum sakborningum verið sleppt. Ekki hafa verið lagðar fram kærur í málunum.

Mest um amfetamín og kókaín

Þá komu upp þrettán fíkniefnamál í gærkvöldi og nótt og er heildarfjöldi slíkra mála kominn á fimmta tug yfir alla hátíðina. Langmest af því sem lagt var hald á var amfetamín og kókaín. Mest voru þetta svokallaðir neysluskammtar en í tveimur málanna er grunur um sölu. Lögreglan segir þetta svipaðan fjölda mála og undanfarin ár.

Átta líkamsárásir voru kærðar á hátíðinni, þar af ein þar sem tennur brotnuðu í þeim sem var sleginn. Í hinum málunum var um minniháttar áverka að ræða. Sextán umferðarlagabrot voru kærð á hátíðinni, lagningabrot, ökumenn án öryggisbeltis, farsímar notaðir án handfrjáls búnaðar og þá var einn kærður fyrir að vera enn á nagladekkjum.

16 þúsund í dalnum í brekkusöng

Í nótt gistu fimm einstaklingar í fangageymslu í Vestmannaeyjum vegna ýmissa mála. Tveir vegna ölvunar og óspekta. Einn skemmdi bíl sem stóð við Áshamar, annar var að bera sig í tjörninni í Herjólfsdal og einn sat inni vegna heimilisofbeldis.

Á samráðsfundi viðbragðsaðila sem fram fór í dag kom jafnframt fram að talið væri að hátíðagestir í brekkusöng í gær hefðu verið um 16.000 og var hátíðin í ár því með fjölmennari hátíðum til þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert