Um 272 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 35 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári.
Aukningin nemur 15,2% milli ára, að því er kemur fram á vef Ferðamálastofu.
Þetta er svipuð hlutfallsleg aukning milli ára og í maí (17,5%) og júní (18,9%) en mun minni en mældist í janúar (75,3%), febrúar (47,3%), mars (44,9%) og apríl (61,9%).
Frá áramótum hafa um 1,2 milljónir ferðamanna komið til landsins sem er um þriðjungs aukning frá sama tímabili árinu áður.
Bandaríkjamenn voru um 29% ferðamanna í júlí eða um 33% fleiri en í júlí í fyrra. Þjóðverjar voru næstfjölmennastir, um 25 þúsund eða álíka margir og í júlí árið 2016. Á eftir fylgdu Bretar, um 16 þúsund eða 9% færri en í júlí árið 2016.