„Getur verið blanda eða hvorugt eða alls konar“

Kynsegin er samheiti yfir alls konar kynvitundir sem að eiga …
Kynsegin er samheiti yfir alls konar kynvitundir sem að eiga það allar sameiginlegt að vera ekki bundnar við það að vera karlkyns eða kvenkyns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kynsegin er samheiti yfir alls konar kynvitundir sem að eiga það allar sameiginlegt að vera ekki bundnar við það að vera karlkyns eða kvenkyns. Þannig að það getur verið blanda eða hvorugt eða alls konar,“ segir Alda Villiljós, formaður Trans Íslands og stofnandi Kynsegin Íslands, í samtali við mbl.is.

Alda mun fara yfir merkingu hugtaksins kynsegin og ræða kynseginbaráttu ásamt þeim Uglu Stefaníu Kristjönu- Jónsdóttur og Fox Fisher á sérstökum fræðsluviðburði í vikunni sem fram fer í tengslum við Hinsegin daga sem nú standa yfir. En hvað hefur áunnist í baráttu kynsegin fólks hér á landi og hvað stendur út af?

Lagaleg réttindi takmörkuð

„Þetta er náttúrlega kannski frekar nýtt í augum flestra þótt þetta sé gamalt hugtak. En það er samt að koma rosalega mikil félagsleg vitneskja og eiginlega bara merkilega margir sem hafa heyrt um þetta og hafa heyrt um fornafnið hán og hafa einhverja hugmynd, sem að er náttúrlega bara frábært,“ segir Alda.

Hán segir að þótt margt hafi áunnist í baráttu kynsegin fólks hér á landi standi enn ýmislegt útaf, til að mynda vanti upp á lagaleg réttindi kynsegin fólks.

Alda Villiljós, formaður Trans Íslands og stofnandi Kynsegin Íslands.
Alda Villiljós, formaður Trans Íslands og stofnandi Kynsegin Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Lögin fyrir trans-fólk til dæmis eru í rauninni þannig að þau gefa trans-fólki réttindi til að sækja læknisþjónustu en þau ganga samt algjörlega út frá því að maður vilji vera, innan gæsalappa, þetta „gagnstæða kyn. Það er enginn lagalegur grundvöllur til dæmis fyrir því að kynsegin fólk fái læknisþjónustu,“ útskýrir Alda.

Yfirleitt bara gert ráð fyrir tveimur kynjum

Víðast hvar í kerfinu sem og í samfélaginu sé aðeins gert ráð fyrir annað hvort kvenkyni og karlkyni. „Þetta fer alveg niður í þetta litla. Maður sé að fylla út eyðublað eða taka próf á netinu eða skrá sig inn á vefsíðu eða eitthvað, þá er rosalega oft spurt hvort þú sért karl eða kona og þá er bara annað hvort,“ segir Alda.

Aðspurð hvort viðhorf og viðmót samfélagsins í garð kynsegin fólks hafi batnað segir Alda svo vera. „Það er að mörgu leiti að koma en auðvitað vantar líka alveg fullt upp á. Maður fær alveg pínu skrítinn svip ef að maður er að tala um sig í hvorugkyni og það eru margir sem að skilja þetta bara alls ekki og setja upp svaka furðusvip og fara að spyrja óþægilegra spurninga og svona,“ bætir hán við.

En hefur persónufornafnið hán að ná einhverri festu í íslensku tungumáli?

„Það eru önnur fornöfn sem eru líka í notkun en sérstaklega hán hefur farið rosalega víða og ég veit að til dæmis Eiríkur Rögnvaldsson sem var að kenna íslenska málfræði í Háskóla Íslands tók þetta upp í sinni kennslu. Það er náttúrlega frábært og vonandi verður til þess að fleiri kennarar geri það en augljóslega er þetta ekkert í kennslu hjá langflestum. Það er náttúrlega vonin að þetta komi inn í málfræðikennslu út um allt og í íslenskukennslu,“ svara Alda.

Það er af mörgu að taka um málefni kynsegin fólks og munu þau Alda, Ugla og Fox um víðan völl á sérstökum málfundi um kynsegin líf í Stúdentakjallaranum á fimmtudaginn klukkan tólf. Viðburðurinn er öllum opinn og fer fram á ensku en þau Ugla Stefanía og Fox munu meðal annars segja frá reynslu sinni af kynsegin baráttunni í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert