Fyrirhuguð gjaldheimta á útsýnispalli Perlunnar var kynnt á fundi borgarráðs þegar leigusamningur borgarinnar og Perlu norðursins fór fyrir borgarráð. Þetta kemur fram í skriflegu svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við fyrirspurn mbl.is. Fundurinn var haldinn í lok mars 2016.
Perla norðursins mun hefja gjaldtöku út á útsýnispall Perlunnar 1. september. Gjaldið verður 490 krónur fyrir 16 ára og eldri en frítt fyrir 15 ára og yngri sem og gesti íshellis og jöklasýningar Perlunnar.
Í frétt Morgunblaðsins í morgun kemur fram að borgarfulltrúar þriggja flokka hefðu fyrst heyrt af fyrirhugaðri gjaldtöku í fjölmiðlum. Borgarráðsfundinn sátu, auk Dags, þau S. Björn Blöndal, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson og Jóna Björg Sætran þegar drög að leigusamningnum voru kynnt.
„Það var gert ráð fyrir að sýningin í Perlunni næði út á pallinn með sérstökum sjónaukum og að til gjaldtöku gæti komið þar. Þetta er nokkuð skýrt í fylgigögnum leigusamningsins sem fór fyrir borgarráð,“ segir í svarinu frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.
Í viðaukanum segir: „Ætlunin er að byggja einstaka aðstöðu í Öskjuhlíðinni fyrir ferðamenn og Íslendinga. Opið verður upp í gegnum Perluna fyrir almenning en eftir fyrsta rekstrarárið verður frítt aðgengi endurskoðað, jafnhliða uppsetningu meðal annars sjónauka og því að pallurinn verði tekinn undir miðlun upplýsinga. Aðgangur að útsýnispallinum yrði þá með sama sniði og aðgangur að turni Hallgrímskirkju og hóflegt gjald innheimt um leið og útsýnispallurinn verður innlimaður í upplifun sýningarinnar, með sérstökum kíkjum sem breyta umhverfinu sem horft er á,“ segir þar meðal annars.
Kemur þar fram að hægt verði að skynja hvernig Reykjavík lítur út ef hnattræn hlýnun heldur áfram eða hvernig útsýnið var eftir lok íslandar þegar Öskjuhlíðin og Skólavörðuholtið voru eyjar.
Í skriflegu svari frá Degi segir að skýrt sé kveðið á um aðgengi almennings að veitingaaðstöðunni á fjórðu og fimmtu hæð. „Þar sem útsýni er ekki síðra, eftir vel heppnaðar breytingar á veitingarýmunum. Jafnframt er kveðið á um að öll skólabörn í Reykjavík fái endurgjaldslausan aðgang að náttúrusýningunni að minnsta kosti tvisvar á sínum skólaferli,“ segir í svarinu.
„Ég geri ráð fyrir að málið verði rifjað upp í borgarráði á morgun. Hvet ég reyndar alla til að heimsækja Perluna, skoða þessar breytingar og fara á þá frábæru sýningu um íshella og jökla sem þar hefur verið þróuð og sett upp.“