Vonir standa til að ný gögn sem beðið er eftir og lögð verða fram fljótlega í máli feðginanna Hanyie og Abrahim Maleki verði til þess að Útlendingastofnun taki mál þeirra til endurskoðunar.
Haldið var upp á 12 ára afmæli Hanyie á Klambratúni fyrir skemmstu þangað sem fjöldi fólks lagði leið sína til að fagna með Hanyie og sýna stuðning í verki en til stendur að vísa feðginunum úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá hefur mál þeirra vakið athygli fjölmiðla víða um heim.
„Við erum að bíða eftir gögnum til að geta mögulega lagt fram ný gögn í málinu sem að verður vonandi tekið tillit til fyrir endurupptöku á ákvörðuninni,” segir Guðmundur Karl Karlsson, sjálfboðaliði hjá hjálparsamtökunum Solaris, sem þekkir feðginin vel og hefur verið þeim innan handar. „Þetta eru ný gögn í málinu sem er verið að vinna og við vonumst til þess að verði tilbúin bara í dag eða á morgun.“
Enn stendur yfir undirskriftasöfnun á vegum Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, þar sem þrýst er á Útlendingastofnun um að endurskoða mál feðginanna. Nú þegar fréttin er skrifuð hafa yfir 9.600 manns skrifað undir áskorunina en til stendur að leggja fram undirskriftalistann samhliða gögnunum sem nú er beðið eftir.
Á dögunum var Abrahim í viðtali við stóra fréttastöð á persneskri tungu sem talin ein sú vinsælasta á því tungumáli. Þar að auki hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum í Bretlandi, Kanada og Sri Lanka.
„Þetta er nokkuð merkilegt. Við erum búin að leita að þessu á netinu og rekst á greinar héðan og þaðan,“ segir Guðmundur Karl. „Þau tóku viðtal við hann á Skype hjá þessari Manoto-stöð og þegar ég skoðaði í morgun var hún enn á lista yfir vinsælustu fréttirnar. Þetta er sjálfstæð fréttastöð í London en það er talað um að 30% af öllum írönskum heimilum kveiki á þessari stöð og horfi á þessa fréttatíma; það er talið að um 25 milljón manns horfi á þetta,” útskýrir Guðmundur.
Rúmlega þriggja mínútna langt fréttainnslag þar sem farið er nokkuð ítarlega yfir mál feðginanna má sjá hér að neðan með enskum texta.