Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra óskar eftir aukinni samkeppni í landbúnaði og segir að það eigi ekki að vera náttúrulögmál að matvælaverð hér á landi sé það hæsta í heimi.
Hann segir verndarkerfið leiða til lágrar framleiðni og stöðunar.
„Það er löngu tímabært að horfast í augu við þann mikla kostnað sem verndin veldur íslenskum neytendum,“ skrifar Þorsteinn á Facebook-síðu sína og bætir við að það sé löngu tímabært að breyta þessu, hagsmunir almennings eigi að ráða för.
Þorsteinn birti súlurit með færslunni þar sem byggir á tölum frá Numbeo. Þar er borinn saman mánaðarlegur kostnaður matarkörfu fyrir einstakling í átta löndum.
Íslenska súlan er hæst þeirra allra en súlunum er skipt í tvo hluta. Efri hlutinn er kostnaður af innlendri matvöru sem nýtur ríkisverndar en sú neðri er kostnaður við matvöru sem nýtur lítillar eða engrar verndar.
„Munurinn á þeim vörum sem eru í virkri samkeppni við innflutning, þar er verðmunurinn ekki mikill. Það er gríðarlegur munur á verði þegar kemur að vöruflokkum sem mestar verndar njóta.“
Spurður að því hvort skoðanir hans um aukna samkeppni í landbúnaði rími við skoðanir starfssystkina hans í ríkisstjórninni segist Þorsteinn ekki hafa velt því fyrir sér.
„Ég er einfaldlega að benda á mynd sem blasir augljóslega við. Það er mjög hátt matvælaverð hér á landi. Markmiðið að lækka það myndi gera lífskjör okkar mun samkeppnishæfari heldur en þau eru í dag og auka kaupmátt almennings,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Hann segir að samkeppni sé fagnað á mörgum sviðum samfélagsins. Til að mynda hafi komu Costco verið fagnað og beðið sé með eftirvæntingu eftir því hver áhrif H&M verða á fataverð hér á landi.
„Það ætti ekki að koma neitt á óvart þar að menn horfi til landbúnaðarins sem búið hefur við mjög mikið verndarkerfi um áratugaskeið. Þar gætu kraftar samkeppni bæði lækkað vöruverð og um leið, með sambærilegum hætti og við sáum í grænmetisframleiðslu, þá gæti aukin samkeppni haft jákvæð áhrif á innlenda framleiðsluþáttinn.“
Ráðherra bætir við að atvinnulíf þróist með því að mæta samkeppni. „Verndin leiðir til lágrar framleiðni og stöðnunar í greininni sjálfri,“ segir Þorsteinn og bætir við að reyna ætti að beina stuðningnum við landbúnað meira í beingreiðslu til bænda frekar en framleiðslutengda styrki.
„Um leið ætti að afnema innflutningsverndina í áföngum. Þannig myndu bændur takast á við aukna samkeppni en njóta áfram stuðnings til sinnar framleiðslu. Ég er fjarri því andsnúinn landbúnaði.“