„Við höfum ekki lýst því yfir að við séum á leið í framboð og höfum meira að segja tekið það skýrt fram að við ætlum ekki að ræða slíka hluti fyrr en með haustinu. Þannig að það kemur okkur raunverulega ekkert á óvart þó að fólk sé ekki að segjast ætla að kjósa okkur. Það er ekki ljóst hverjir verða í framboði fyrir okkur og ekki komið fram hver kosningastefnan okkar verður eða neitt slíkt. Þannig að ég væri mjög hissa á ef fólk lýsti því yfir að það ætlaði að kjósa okkur þó svo að við séum ekki í framboði. Það væri líklega einstakt í sögunni ef það myndi gerast.“
Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, formaður bráðabirgðastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, í samtali við mbl.is spurður um gengi flokksins í skoðanakönnunum undanfarna mánuði frá því að hann var formlega stofnaður 1. maí. Bráðabirgðastjórn var þá kjörin sem meðal annars er ætlað að efla starf Sósíalistaflokksins og undirbúa Sósíalistaþing, landsfund flokksins, sem fram fer í haust. En þrátt fyrir talsverða fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda stofnfundarins hefur Sósíalistaflokkurinn ekki komist á blað í könnunum fram til þessa yfir þá flokka sem nefndir eru sem valkostir.
„Ég held að það sé ekki boðið upp á okkur sem valkost í skoðanakönnunum. Mér finnst ekkert óeðlilegt að þegar valkostinum er ekki haldið að fólki og að við höfum ekki lýst yfir framboði eða gefið það upp hvort við verðum í framboði þá þykir mér ekkert óeðlilegt að fólk, þrátt fyrir að vera kannski rammir sósíalistar, sé líklegra til þess að velja úr þeim kostum sem haldið er að því,“ segir Gunnar Smári ennfremur. Fyrir vikið hafi hann engar áhyggjur af fylgi flokksins. „Við höfum einfaldlega verið að vinna í innri málum okkar og lítið verið að beita okkur út á við.“
Fyrir vikið segi skoðanakannanir á þessu stigi ekkert um möguleika Sósíalistaflokksins. „Ef við vildum kanna þau mál þá myndum við bara gera slíka könnun. Við gerðum það að sumu leyti í vor með því að bjóða fólki að skrá sig í flokkinn og fengum um 1500 manns sem segir okkur að við eigum fullkomlega erindi. Við erum að vinna núna með þessum hópi í því að byggja hann upp og við erum ekki í neinum vafa um þörfina fyrir okkur og erindi okkar.“ Það skemmtilega í pólitíkinni í dag sé endurvakning sósíalismans í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar um heiminn.
Varðandi framhaldið segir Gunnar Smári að meðal annars málefnavinna sé í fullum gangi innan Sósíalistaflokksins og þá standi til að stofna sellur víða um land. „Við erum núna að hefja málefnavinnu sem byggir á slembivali út úr hópi félaga. Það eru að fara í gang fjórir málefnahópar um húsnæðismál, heilbrigðismál, lýðræðismál og sameiginlega sjóði. Síðan erum við að hefja starf á meðal félaganna. Við erum að búa til svona sellur sem skipt verður eftir nágrönnum, byggðalögum og hverfum.“ Ennfremur séu starfandi hagsmunahópar líkt og hópur leigjenda.
„Þannig að við erum einfaldlega að byggja upp hreyfingu og eigum síðan eftir að ákveða með haustinu hvort við ætlum að vera flokkur í framboði. Það er ekki frágengið. Mér finnst líklegt að það verði niðurstaðan. En það er til dæmis ekkert endilega víst að við tökum þátt í sveitarstjórnarkosningunum. Það kann að vera að fyrsta verkefnið verði að bjóða fram í verkalýðsfélögunum.“