Íbúar í Grafarvogi hafa í sumar ítrekað orðið varir við ólykt, sem þeir telja berast frá atvinnusvæðinu í Gufunesi og staðfesti rekstrarstjóri Skemmtigarðsins í Grafarvogi í samtali við mbl.is í gær að þangað berist reglulega ólykt.
„Þetta er algjör viðbjóður þegar þetta kemur og við erum búin að vera í sambandi við Heilbrigðiseftirlitið frá því í fyrra með þetta,“ sagði Snorri Helgason, rekstrarstjóri Skemmtigarðsins í Grafarvogi í frétt mbl.is í gær.
Í sömu frétt var haft var eftir íbúum sem búsettir hafa verið í Rimahverfi í meira en áratug að þeir hafi ekki orðið varir við sambærilega ólykt fyrr en nú í ár. „Eins og úldin fiskilykt“ var lýsingin sem einn íbúi notaði um málið í lokuðum Facebook-hópi íbúa. Ekki verða þó allir íbúar varir við slíka lykt. Sumir hafa raunar aldrei orðið hennar varir og þá liggur lyktin ekki yfir byggðinni að staðaldri, heldur virðast íbúar á sumum svæðum varir varir við hana í ákveðinni vindátt.
Mbl.is sendi fyrirspurn á Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem staðfestir að stofnuninni hafi borist kvartanir um ólykt frá umræddu svæði og að heilbrigðisfulltrúar hafi farið í eftirlitsferðir í kjölfar slíkra ábendinga. „Eftirlitsferðir voru farnar dagana 17., 26., og 27. júlí s.l.,“ segir í skriflegu svari Heilbrigðiseftirlitsins. Í þeim ferðum hafi hins vegar ekki tekist að staðfesta að ólykt sem valdi ónæði í grennd berist frá fyrirtækjum í Gufunesi.
Í viðbótar svörum sem mbl.is bárust nú síðdegis frá stofnuninni segir að í fyrra hafi borist kvartanir vegna lyktar á svæðinu og hafi þær beinst beint að Íslenska gámafélaginu. Ekki hafi hins vegar verið hægt að rekja þær sérstaklega þangað „við ítrekað eftirlit framkvæmt 2016.“
Á atvinnusvæðinu í Gufunesi starfa þrjú fyrirtæki sem eru í endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs og eru það Íslenska Gámafélagið, Sorpa og Moldarblandan-gæðamold.
Í svari stofnunarinnar segir að „veðuraðstæður og hitastig“ geti því haft áhrif á að lykt berist í grennd „þó að Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki getað staðfest við eftirlit hingað til að ólykt sem veldur ónæði komi frá þessu svæði né þá að það tengist einu fyrirtæki fremur öðru.“
Allar kvartanir og ábendingar séu þó rannsakaðar hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Eru íbúar því hvattir til að hafa samband á dagvinnutíma þegar ástandið sé slæmt „svo möguleiki sé á að bregðast við strax“ og finna uppruna ólyktarinnar.
Mbl.is hefur undir höndum afrit af tölvupóstum sem sýna að íbúar hafa sent inn kvartanir utan þeirra þriggja daga sem vísað er til í bréfi eftirlitsins, m.a. í lok júní og ítrekað yfir rúmlega vikutímabil í lok júlí og byrjun ágúst.
Forsvarmenn Skemmtigarðsins senda Heilbrigðiseftirlitinu líka inn tilkynningar þegar þeir verða varir við ólykt. „Þá reynir starfsmaður frá Heilbrigðiseftirlitinu að koma og finna hvaðan lyktin kemur,“ var haft eftir Snorra í fyrrnefndri frétt.
Starfsmenn eftirlitsins hafi komið á staðinn í þrígang nú í sumar þegar hann hefur sent þeim línu. „Þeir hafa alveg fundið lyktina og vita að hún er til staðar,“ sagði Snorri.
Uppfært: 15:58
Í nánari svörum frá Heilbrigðiseftirlitinu sem mbl.is bárust nú síðdegis segir að í fyrra hafi borist kvartanir vegna lyktar á svæðinu og hafi þær beinst beint að Íslenska gámafélaginu. Ekki hafi hins vegar verið hægt að rekja þær sérstaklega þangað „við ítrekað eftirlit framkvæmt 2016.“
Þær þrjár eftirlitsferðir sem greint var frá í fyrri svörum stofnunarinnar hafi hins vegar verið farnar vegna almennt starfsemi á svæðinu, rannsóknar á lyktarmengun og kvartana sem hafa borist á þessu ári.
Íbúar hafa einnig haft orð á að magn úrgangs á svæði Íslenska gámafélagsins virðist óvenju mikið nú. Heilbrigðiseftirlitið segir sér ekki vera kunnugt um aukningu á úrgangi almennt á staðnum, heldur sé magn úrgangs „mismunandi á svæðinu frá einum tíma til annars eftir því hvernig stendur á móttöku og flutningi til og frá svæðinu.“
Íslenska gámafélagið hafi þegar skilað hluta af því svæði sem það var með á leigu og unnið sé að skipulagi þess. Síðari áfangar fari síðan skipulags þegar fyrirtækið víkur af svæðinu, sem gert er ráð fyrir að verði árið 2022.
Ekki sé verið að vinna nýtt skipulag á því svæði sem Sorpa og Moldarblandan eru í dag, en hafa megi í huga að í aðalskipulag segi að „iðnaðarstarfsemi á svæðinu er víkjandi en gert er ráð fyrir þrifalegri atvinnustarfsemi á svæðinu í framtíðinni“.