Geti afgreitt umsóknir samdægurs

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld hafa unnið að því að skerpa á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi og stytta málsmeðferðartímann en til þess verða meðal annars ráðnir tíu sérfræðingar til starfa hjá Útlendingastofnun af hælislið fjárlaga.

Þetta segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. Þannig verði meðal annars málsmeðferðin þegar fólk, sem kemur frá löndum sem talin eru örugg, leggur fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd stytt.

„Við erum að fara að stytta enn frekar málsmeðferðina í slíkum tilfellum þannig að hægt á að vera að afgreiða slíkar umsóknir samdægurs. Síðan verður gert átak í því að vísa því fólki úr landi sem fengið hefur synjun,“ segir ráðherrann.

Ekki er gert ráð fyrir að þeir fjármunir sem fara í hælislið fjárlaga fari í starfsmenn en Sigríður segir rökrétt að þeir séu nýttir með þessum hætti í þjónustu við hælisleitendur. Starfsmennirnir verði alfarið í því að sinna hælisumsóknum.

Hælisumsóknum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en fyrstu sex mánuði þessa árs sóttu 500 manns um hæli hér á landi og á síðasta ári rúmlega 1100. Útlendingastofnun telur að umsóknir á þessu ári gætu orðið á bilinu 1700-2000.

Flestar umsóknirnar eru frá fólki sem koma frá löndum sem talin eru örugg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert