Áttaði sig ekki á nálægð við jökulinn

Þyrlan á slysstað.
Þyrlan á slysstað. Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að flugmaður þyrlu Norðurflugs hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu lágt hann flaug þegar þyrlan skall á Eyjafjallajökli 1. maí 2014. Enginn meiddist alvarlega í slysinu. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur gefið út lokaskýrslu vegna flugslyssins. Þyrlan var af gerðinni Eurocopter AS350B2 og var í verkflugi vegna kvikmyndatöku. Þyrlan tók á loft úr Fljótshlíð á Suðurlandi og var ferðinni heitið suður fyrir Eyjafjallajökul, yfir Fimmvörðuháls og að tökustað á Morinsheiði ofan við Goðaland.

Um borð var flugmaður þyrlunnar, ásamt þremur farþegum. Skömmu fyrir slysið hafði einn farþeginn óskað eftir að lent yrði svo hægt væri að skipta um ljósasíu á kvikmyndavélinni, en birtuskilyrði höfðu breyst. Flugmaðurinn sá svæði á jöklinum þar sem hann taldi sig geta lent. Í kjölfarið missti hann viðmið á jöklinum bæði fram undan og til hliðar, skömmu fyrir fyrirhugaða lendingu á jöklinum, og skall þyrlan á jöklinum í kjölfarið. 

Rannsóknin benti til þess að afkastageta þyrlunar hefði verið nægileg í þeim aðstæðum þar sem slysið varð. RNSA telur að þar sem þyngdarmiðja þyrlunnar var framarlega hafi það hjálpað við að halda þyrlunni innan þyngdar- og vægismarka eftir að kvikmyndavélarkúlan brotnaði framan af henni í brotlendingunni.

RNSA telur að þegar flugmaðurinn flaug undir skýjahulu yfir jöklinum hafi birtuskilyrði snögglega breyst það mikið að hann missti þau viðmið sem hann hafði haft á jöklinum. Í kjölfarið, vegna þess að viðmið á jöklinum voru ekki lengur fyrir hendi og vegna hækkunar jökulsins í flugstefnu þyrlunnar að fyrirhuguðum lendingarstað, gerði flugmaðurinn sér ekki grein fyrir hversu lágt hann flaug aðflugið yfir jöklinum.

Að endingu flaug flugmaðurinn þyrlunni í jökulinn í aðfluginu á 60 hnúta hraða og lenti kvikmyndatökukúlan fyrst í jöklinum. Þekkt er að þegar flugmenn missa viðmið á jörðu verður skynvilla þess valdandi að þeim finnst þeir vera í meiri hæð en raunin er. Einnig beinast augu þeirra sjálfkrafa að punkti í hvíldarstöðu, sem er yfirleitt í um eins metra fjarlægð, en þetta er þó breytilegt eftir einstaklingum og sjón þeirra. Á ensku er þetta kallað „Empty Field Myopia“.

Í þyrluflugi getur verið vandasamt að lenda á svæði sem hulið er snjó, svo sem á jöklum. Bendir RNSA á upplýsingar sem gefnar hafa verið út af flugmálastjórn Kanada um lendingar og flugtök á snjó. Þar sem lenda þarf þyrlum við aðstæður þar sem lítil sem engin viðmið eru á jörðu er algengt að notast við merkingar sem látnar eru falla úr þyrlunni á ætluðum lendingarstað, segir í skýrslunni en hana má lesa í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert