Hafa áhyggjur af stöðunni

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Ófeigur

Fulltrúar VG, Pírata, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýsa áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin við umfjöllun nefndarinnar um reglur um uppreist æru og því stjórnleysi sem ríkir í nefndinni.

Þetta kemur í bókun minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá í morgun. 

Þar er bent á að áður en meðmælabréf um uppreist æru voru lögð fram í trúnaði, á fundi nefndarinnar í dag, hafi allir fulltrúar stjórnarmeirihlutans, nema formaður, gengið út af fundinum.

Umrædd meðmælabréf hafi vakið nýjar spurningar um framkvæmd laganna af hálfu ráðuneytis og ráðherra og því segja fulltrúar minnihlutans vandséð að fulltrúar meirihlutans geti fjallað um málið í nefndinni í framhaldinu. 

Fulltrúar minnihlutans óskuðu eftir eftirfarandi á fundinum í morgun:

  • Nánari greiningu á gögnum sem fylgt hafa beiðnum um uppreist æru á undanförnum árum og afgreiðslu þeirra.
  • Upplýsingum um ferli sambærilegra mála í nágrannalöndunum og að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins komi sem fyrst á fund nefndarinnar til að svara spurningum sem vaknað hafa um feril mála um uppreist æru og stjórnsýsluhætti.
  • Að sá hópur sem gagnrýnt hefur ferlið á undanförnum misserum komi á fund nefndarinnar til að reifa sín sjónarmið milliliðalaust.
  • Minnisblaði frá yfirlögfræðingi Alþingis um stöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar fjórir nefndarmenn hafa neitað að taka við gögnum sem eru á dagskrá nefndarinnar og þar með hafa áhrif á næstu skref í umfjöllun um uppreist æru.
  • Að forsætisnefnd fjalli um þá stöðu sem upp er komin í nefndinni í ljósi þess að nefndin fer með afar mikilvægt hlutverk gagnvart almenningi og þinginu og á samkvæmt lögum að „kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu“. Þetta hlutverk getur ekki verið valkvætt fyrir þá fulltrúa sem nefndina skipa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert