Skorar á meðmælendurna að stíga fram

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á fundinum í morgun.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á fundinum í morgun. mbl.is/Ófeigur

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að hún hafi ekki heimild til að gefa upp nöfn þeirra sem skrifuðu undir meðmæli þess efnis að Robert Downey yrði veitt uppreist æra. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um málið í morgun og lýsti Birgitta yfir vantrausti á formann nefndar að fundi loknum.

„Þessu var stillt upp þannig að það væru einhverjar heilsufarsupplýsingar sem væru bundnar lögum um trúnað; persónuverndarákvæði. Svo kom í ljós að þetta er allt mjög almennt en það er búið að binda okkur í minnihlutanum þannig trúnaði að við erum að brjóta lög ef við upplýsum um hverjir þessir meðmælendur eru,“ sagði Birgitta í samtali við mbl.is að loknum fundi á nefndarsviði Alþingis í dag.

Meirihlutinn gekk út af fundinum

Hún segir að sér hafi komið á óvart það stjórnleysi sem ríkti í nefndinni í morgun. 

Meirihlutinn gekk allur út og vildi ekki sjá þau gögn sem við sem nefnd kölluðum eftir. Væntanlega af ótta við að þau gætu ekki staðist að brjóta ekki trúnað. Ég skil ekki alveg hvað er í gangi og fyrst þau hafa ekki séð þessi bréf þá geta þau væntanlega ekki verið á fundum. Við þurfum að kalla eftir áliti lögmanns Alþingis og forsætisnefndar hvort þau geta setið á fundum þar sem við erum að ræða við ráðuneytið um spurningar sem vakna við lestur bréfanna.“

Birgittu þykir málið hið furðulegasta og er þá ekki eingöngu að tala um þetta einstaka mál. Hún bendir á að í öðrum löndum líði yfirleitt tíu ár áður en menn geti sótt um uppreist æru en hér séu þau fimm. 

„Meirihlutinn gekk allur út og vildi ekki sjá þau gögn …
„Meirihlutinn gekk allur út og vildi ekki sjá þau gögn sem við sem nefnd kölluðum eftir. Væntanlega af ótta við að þau gætu ekki staðist að brjóta ekki trúnað,“ sagði Birgitta eftir fundinn. mbl.is/Golli

Nefndarformaður kíkti ekki á póstinn 

„Það er engin regla á verklagi hvort inntakið í meðmælabréfunum sé kannað né neinar sérstakar reglur. Segjum að þú sért barnaníðingur og sért kennari; það eru engar reglur um hvort þú getir orðið kennari aftur. Það þarf að ræða um þetta í stóra samhengingu og finna lausnir,“ sagði Birgitta við blaðamann.

Í þann mund gekk formaður nefndarinnar, Brynjar Níelsson, út úr fundarherberginu. Hann neitaði að veita viðtal og sagðist ekki „ætla að ræða við fjölmiðla um þetta mál.“

Nefndin hefur kallað eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvernig verklagið er og hverjir hafa fengið uppreista æru. „Við fengum þessar upplýsingar fyrir alllöngu síðan en formaður nefndarinnar hafði ekki kíkt í pósthólfið sitt og fyrir vikið erum við núna að funda mánuði seinna. Ef við hefðum fengið upplýsingar strax, til að mynda áður en formaður eyddi miklum tíma að ræða við fjölmiðla að hann hefði fengið bréf sem óskað var eftir miklum trúnaði um, þá hefðum við getað gert athugasemdir um það hvernig við fengum þessar upplýsingar um öll tilfellin,“ sagði Birgitta og sagði fráleitt hvernig nefndin hefði fengið gögnin afhent.

„Við fengum bara Excel-skjal með númerum í málum,“ sagði hún og bætti við að nefndarmenn þurfi nú sjálfir að leita að öllum málum.

Lýsir yfir vantrausti á Brynjar

Birgitta segir að ef hún væri að mæla með því að einhver hlyti uppreist æru væri hún ekki feimin að upplýsa um það og væri stolt af sinni ákvörðun. „Ég skora á þá sem mæltu með því að Robert fengi uppreist æru að þeir sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þeir treysti því að þessi aðili hafi breyst.“

Á meðan fundi stóð heyrðust Birgitta og Brynjar hækka róminn en Birgitta sagði að allur minnihlutinn hefði staðið í orðaskaki við Brynjar. „Ég lýsi yfir algjöru vantrausti á hann sem formann þessarar nefndar. Mér finnst hann hafa stýrt þessu máli í afar mikinn skurð og raun allt í kringum fundinn með Ólafi Ólafssyni var mjög til vansa. Hann virðist ekki átta sig á sinni stöðu sem formaður nefndarinnar, eins og hann tjáir sig í fjölmiðlum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert