Telja upptök ólyktar á Gufunesi fundna

Atvinnusvæðið í Gufunesi. Heilbrigðiseftirlitið telur að uppruna ólyktar sem borist …
Atvinnusvæðið í Gufunesi. Heilbrigðiseftirlitið telur að uppruna ólyktar sem borist hefur frá svæðinu kunni að vera að finna í súru heyi sem kom með hrossaskít til moltugerðar. mbl.is

Súrt hey í hrossaskít kann að reynast ástæða sorplyktar sem íbúar í Grafarvogi hafa ítrekað fundið leggja yfir vissa hluta hverfisins nú í sumar.  

Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að íbúar í sumum hlutum Grafar­vogs hafi í sumar ít­rekað orðið var­ir við ólykt og staðfesti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að stofnuninni hefðu borist kvartanir vegna málsins og að eftirlitsferðir hefðu verið farnar vegna þessa. 

Að sögn Jóhanns Hauks Björnssonar, forstjóra Íslenska gámafélagsins, kom Heilbrigðiseftirlitið í heimsókn í fyrirtækið á föstudaginn og hafði þá talið sig geta rakið súra lykt á vinnslusvæði Gámafélagsins.

„Þá var farið í að skoða moltugerðina og þá reyndist vera súrt hey í hrossaskít sem talið er að lyktin hafi borist úr,“ segir Haukur. Í moltugerð Íslenska gámafélagsins fari þrjú hráefni – timburkurl, hrossaskítur og lífrænn úrgangur sem m.a. komi frá veitingastöðum borgarinnar.

Fá viku til að flytja skítinn burt

Haukur segir fyrirtækið vera með moltugerð á svæðinu og lykt geti komið þegar moltunni er snúið og því sé Gámafélagið með mjög strangar reglur um það  hversu oft og hvenær það sé gert. Þannig sé til að mynda reynt að snúa moltu ekki þegar vind leggur af hafi yfir byggðina.

„Þessi hrossaskítur reyndist innihalda mikið af súru heyi sem okkar fólk og Heilbrigðiseftirlitið sammæltist um að gæti verið möguleg orsök lyktarinnar.“ Hann segir að í kjölfarið hafi verið sett upp áætlun sem verið sé að vinna eftir þessa stundina. „Hún felst í því að flytja þetta einfaldlega í burtu og fá inn nýtt hráefni í staðinn,“ segir Haukur og kveðst vona að með þessu verði lyktarvandinn úr sögunni.

Vonast eftir lyktarlausri helgi

Gámafélagið fékk viku til að fjarlægja hrossaskítinn. „Ég veit að verkið er núna langt komið,“ segir Haukur. „Við skulum vona að það verði lyktarlaus helgi.“

Eðli lyktar er þó að hans sögn þannig að erfitt getur verið að staðsetja hana nákvæmlega. Gámafélagið taki hins vegar öllum athugasemdum með lykt alvarlega. „Það eru nokkur fyrirtæki á staðnum og ég veit að öll þessi fyrirtæki eru að vinna með Heilbrigðiseftirlitinu. Við vinnum mjög náið með þeim bæði að því að fyrirbyggja lykt og annað. Lykt og lyktarleysi er stór hluti af lífsgæðum fólks þegar það velur sér hverfi til að búa í. Þannig að við höfum sett okkur mjög strangar reglur er kemur að öllu varðandi lykt.“

Haukur segir athugasemdir frá íbúum í hverfinu því vera teknar alvarlega, hvort sem hvort sem staðfest sé að lyktin komi frá þeim eða ekki. Því hafi svæði Íslenska gámafélagsins verið yfirfarið eftir að fréttir af ólykt frá Gufunesi bárust og passað upp á að verið væri að fylgja öllum þeim ferlum sem fyrirtækið og Heilbrigðiseftirlitið seti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert