Bíða upplýsinga um sjálfsvígið

mbl.is/Kristinn

Tilkynning frá Landspítala til embættis landlæknis um atvik sem átti sér stað aðfaranótt föstudags þegar ungur maður svipti sig lífi á geðdeild spítalans, var ekki fullnægjandi og bíður embættið nú eftir nánari upplýsingum frá spítalanum.

Tilkynningin til embættisins barst í gær, en að sögn Önnu Bjargar Aradóttur, sviðsstjóra sviðs eftirlits- og frávika hjá landlæknisembættinu, voru litlar sem engar upplýsingar í tilkynningunni. Kom þar aðeins fram að atvikið hafi orðið, en það voru ófullnægjandi upplýsingar fyrir embættið til að geta hafið rannsókn. Vinnur yfirstjórn spítalans því að því nú að taka saman nánari upplýsingar til að senda embættinu.

Greina hvað olli atvikinu

Spurð um ferlið sem mun taka við þegar upplýsingarnar berast segir Anna Björg að málið verði þá að svokölluðu eftirlitsmáli. „Þá rannsökum við málið og skoðum þau gögn sem við erum með og athugum hvort við þurfum fleiri gögn,“ segir hún og heldur áfram:

„Landspítalinn er oft með svokallaðar rótargreiningar. Þá er atvikið greint út frá ákveðinni aðferðarfræði og reynt að greina hvað varð þess valdandi að atvikið varð; var þetta mönnun, tækni, ekki farið eftir verklagi eða hvað var þetta? Við bíðum yfirleitt eftir því áður en við komumst að niðurstöðu í málinu,“ segir hún.

Spurð um það hvenær búast megi við því að frekari upplýsingar berist frá spítalanum segir Anna það geta tekið nokkra daga. „Við þurfum ítarlegar upplýsingar og það þarf að keyra þetta út frá sjúkraskránni og svo framvegis svo það gæti tekið fram í næstu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert