Ulla er fædd og uppalin í danskri lóranstöð á Grænlandi. Hún á grænlenska móður, danskan föður og fimm systkini. Á afskekktri lóranstöðinni bjuggu 15 manns. Helgi Þór er fæddur og uppalin í Í Vestmannaeyjum. Hann er lærður vélstjóri og á þrjú systkini.
Helgi Þór og Ulla kynntust í Vestmannaeyjum árið 1990 þegar Ulla kom þangað sem au pair. Ulla hafði ætlað til Færeyja en endaði í Eyjum og er ekki farin til Færeyja enn. Helgi Þór og Ulla fögnuðu silfurbrúkaupi 3. maí sl.
Ulla vann í fiski í Eyjum og Helgi Þór var á sjó, lengst af á Breka VE. Í dag rekur Helgi Þór skipaviðgerðarfyrirtæki í Danmörku, Breki Ship Service, og flakkar á milli Danmerkur og Íslands. Á meðan sér Ulla um rekstur á nokkrum sumarbústöðum sem hjónin leigja út á Laugarvatni og í Grímsnesi.
,,Ég ætlaði aldrei að eignast börn. Það var svo mikill hávaði sem fylgdi þeim,“ segir Ulla, en það breyttist þegar hún kynntist Helga Þór, sem var ekkert farinn að hugsa út í barneignir á þeim tíma. Á 19 árum eignuðust þau 10 börn sem nú eru á aldrinum fjögurra til 24ra ára. Börnin eru fædd í Vestmannaeyjum, Hveragerði og Danmörku. „Við lentum í því í Danmörku áður en Danir breyttu nafnalögunum að börnin báru nafn föður míns Steingríms, en svo fengu þau mitt nafn,“ segir Helgi Þór hlæjandi.
„Við eigum ekki mörg börn. Við eigum 10 einstaklinga,“ segir Ulla og bætir við að ætlunin hafi ekki verið að eignast svona mörg börn. „Þau komu bara, biðu þarna úti eftir að koma. Ég hafði það alltaf á tilfinningunni þegar þau voru orðin níu að það ætti eitt eftir að koma. Þá kom Ísak Móri og nú erum við hætt. Við erum orðin of gömul fyrir fleiri.“
Ulla hefur alltaf verið hraust á meðgöngu og fæðingarnar gengið vel. „Ég var einu sinni að leggja bílnum og þegar ég kom upp á fæðingardeild var hún búin,“ segir Helgi Þór og stoltið leynir sér ekki.
Börnin hafa verið heilsuhraust að mestu leyti. „Það er erfitt þegar þau veikjast. Það getur tekið langan tíma fyrir allan hópinn að fara í gegnum kerfið og klára magapestir og aðrar pestir. Lengsta samfellda tímabilið var átta vikur í fyrra,“ segir Ulla. „Eftir þetta tímabil veiktist ég, sem aldrei veikist.“
Stress er ekki til í kokkabókum Helga Þórs og Ullu. „Það hefur alltaf gengið vel með börnin. En við þurfum að vera skipulögð með það sem snýr að daglegu lífi, annars geta börnin endað á einhverjum þvælingi. Sumarfrí er erfitt að skipuleggja. Við látum það bara ráðast hvernig fríið þróast. Með 10 barna hóp kemur alltaf eitthvað óvænt upp,“ segja hjónin, sem telja sig hafa nægan tíma fyrir hvort annað. „Er það ekki að hafa tíma fyrir sjálfan sig og okkur að vera með börnunum? Það var ég sem fæddi þessi börn og mér líður mjög vel með þeim. Við búum í Kórahverfinu í Kópavogi og þaðan er stutt að fara í Heiðmörkina. til þess að slaka á og tína ber,“ segir Ulla. Hjónin eru sammála um að þau myndu ekki vilja breyta neinu.
Það var erfitt að framfleyta fjölskyldunni á Íslandi og Helgi Þór sá lítið af börnunum. Hann hætti á sjónum og fjölskyldan flutti til Danmerkur að sögn Helga Þórs og Ullu. Veran í Danmörku fór ekki vel í Ullu. Hún þráði að komast úr flatneskjunni í Danmörku í náttúruna, rokið og rigninguna á Íslandi.
Fyrir einu og hálfu ári flutti fjölskyldan aftur til Íslands en Helgi starfar enn í Danmörku. Þar búa með honum þrjú barnanna sem eru í námi þar, auk þess sem eitt er farið að heiman og býr í Danmörku. Sex eru á Íslandi með móður sinni á heimili Ullu og Helga Þórs en elsta barnið er á förum til Ástralíu.
„Börnin eru 10 mismunandi einstaklingar. Þó að þau rífist og sláist öðru hverju ristir það ekki djúpt. Í dag eru það helst yngri börnin sem slást um einu tölvuna sem þau hafa til umráða,“ segir Helgi Þór.
Ulla og Helgi eru sammála um að fjölbreytileikinn sé það skemmtilegasta við að eiga 10 börn. „Það er frábært að hlusta á þau rökræða við hvert annað,“ segir Helgi. Það erfiðasta segir Ulla vera foreldraviðtölin í skólanum. „Í fullri hreinskilni er ég orðin skólaþreytt. Ég skil vel að foreldraviðtöl séu nauðsynleg en í Danmörku voru þau minnst þrisvar á hvorri önn. Með fimm börn í grunnskóla voru þetta a.m.k. 15 viðtöl á önn.“
Ulla segir að engin af börnunum hafi verið í leikskóla nema Ísak Móri. „Við settum hann í leikskóla þegar við fluttum til Íslands til þess að hann yrði fljótari að ná íslenskunni. Ég lagði mikla á áherslu á að læra íslensku sem allra fyrst þegar ég flutti til Íslands,“ segir Ulla.
„Ulla talar oftar íslensku við börnin en ég. Ég veit ekki af hverju ég tala dönsku við þau. Ég sé eftir því og er alltaf að reyna að bæta mig,“ segir Helgi Þór.
Hjónin eru sammála um að það sé ekki líkamlega erfitt að eiga svona mörg börn. En það getur tekið á andlega. „Tíu börnum fylgja óhjákvæmilega áhyggjur.“
Ulla og Helgi Þór eru sammála um að eldri systkinin séu góð fyrirmynd fyrir yngri börnin. Eldri börnin séu reglusöm og þau hafi blessunarlega sloppið við öll unglingavandræði. Börnin passi vel upp á hvert annað þegar fjölskyldan ferðast. „Það hefur einu sinni gerst að eitt af þeim týndist í stuttan tíma í fríhöfninni hér heima og ég gleymi aldrei svipnum á konunni sem sá mig leggja fram 10 vegabréf á flugvellinum. Hún kom til mín og sagði: „Fyrirgefðu, en átt þú öll þessi börn? Þú lítur út fyrir að vera svo ung,“ segir Ulla hlæjandi.
„Eldra fólk segir okkur að við eigum góðan fjársjóð en yngra fólkið verður yfirleitt hissa,“ segja Helgi Þór og Ulla spurð um viðbrögð fólks við barnafjöldanum.
Góð ráð handa uppalendum frá tíu barna foreldrum hljóma svona. „Ekki hafa áhyggjur ef hlutirnir fara ekki eins og þú vilt; þetta reddast alltaf. Það er til lausn við öllu. Við tökum þetta á æðruleysinu. Það er alltaf ljós við endann.“
Ullu langar að stunda meiri útivist í framtíðinni og helst að ganga í hjálparsveit. „Mig langar að taka þátt í hjálparstörfum,“ segir hún. Það ætti ekki að vefjast fyrir tíu barna móðurinni. Hún hefur í yfir tvo áratugi sinnt hlutverki framkvæmdastjóra, hjúkrunarfræðings, næringarfræðings, kennara, bílstjóra og matreiðslumanns svo eitthvað sé nefnt. „Það er ekki mikið mál fyrir mig að elda máltíð fyrir 20 manns úr einu kílói af hakki,“ segir Ulla og bætir við. Ég þarf tvær þvottavélar, það er nauðsynlegt fyrir mig að hafa alltaf eina til vara ef hin bilar.“
Helgi Þór og Ulla eiga eitt verkefni eftir, en það er að fara til Svalbarða.