Palin líkir Íslendingum við nasista

Sarah Palin segir Ísland ekki verða fallegt áfram ef Íslendingar …
Sarah Palin segir Ísland ekki verða fallegt áfram ef Íslendingar haldi áfram á þessari braut. Mynd/JOSH ANDERSON

Sara Palin, fyrrverandi ríkisstjóri Alaska í Bandaríkjunum, vandar Íslendingum ekki kveðjurnar eftir að hafa séð umfjöllun bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CBS um Downs-heilkenni á Íslandi, en nær allar þungaðar konur sem fá jákvæðar niðurstöður um að líkur séu á að heilkenninu, láta eyða fóstrinu. Í þættinum kemur fram að Íslendingum hafi nánast tekist að útrýma heilkenninu.

Palin, sem sjálf á 9 ára gamlan son, Trig, með Downs-heilkennið, líkti Íslandi við Þýskaland nasismans í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox í gærkvöldi. Hún sagðist hafa hitt forseta Íslands þegar hún var ríkisstjóri og að þau hefðu talað um þetta fallega land og fallega og duglega fólkið sem byggi þar. Fólk með gott hjartalag.

„Ísland verður ekki mjög fallegt ef það heldur áfram á þessari braut, ef Íslendingar hafa áfram að vera svona óumburðarlyndir og eyða lífum fólks sem lítur öðruvísi út,“ sagði Palin í viðtalinu.

Hún sagði að það hvernig börn með Downs heilkenni líti út geri þau einmitt svo einstök og þau geri heiminn fallegri. „Að reyna að eyða þessum lífum í þeim tilgangi að skapa hin fullkomna kynþátt eða fullkomna land er bara það sama og nasistarnir gerðu í Þýskalandi. Þeir reyndu þetta og sjáum hvaða hörmulegu afleiðingar það hafði.“ Palin sagðist í raun ekki hafa getað horft á alla umfjöllun CBS án þess að hjarta hennar brysti.

Draga þarf úr ótta mæðra 

Í viðtalinu var hún spurð út í það í hvernig henni hafi liðið þegar læknar tjáðu henni að töluverðar líkur væru á því að sonur hennar myndi fæðast með Downs-heilkenni.

„Ég skil alveg tilfinningar móður sem fær þær upplýsingar að barnið hennar sé með downs heilkenni. Maður fyllist ótta. Ég fylltist ótta. Ég þurfti að undirbúa mig, undirbúa hjarta mitt og augu. Ég þurfti spyrja guð út í tilganginn með fæðingu sonar míns. Hann svaraði svo sannarlega bænum mínum, því um leið og Trig fæddist þá hvarf óttinn.“

Palin segir að hægt sé að draga úr ótta hjá mæðrum gagnvart Downs-heilkenninu og öðrum áskorunum sem kunna að koma upp með því að tala af stolti um börn downs heilkenni. „Þau veita okkur svo mikla gleði. Þau færa heiminum svo mikla gleði ef við gefum þeim bara tækifæri.“

Umfjöllun CBS hefur vakið mikla athygli og Palin er ekki eini nafntogaði einstaklingurinn sem hefur tjáð sig um hana.

Ted Cruz, þingmaður Repúblikanaflokksins, og leikkonan Patricia Heaton, sem er einna þekktust fyrir leik sinn í þáttunum Everybody loves Raymond, gagnrýndu bæði Íslendinga harðlega á Twitter. Þingmaðurinn sagði að lífi barna með Downs-heilkenni skyldi fagnað, en ekki endað. Heaton var enn harðorðaðri. Hún sagði Íslendinga ekki vera að uppræta heilennið, heldur væru þeir einfaldlega að drepa alla. Fjölmargir foreldrar barna með Downs-heilkenni hafa þakkað henni fyrir á Twitter, að taka málstað barnanna með þessum hætti.

Fæðast með Downs þrátt fyrir skimun 

Í umfjöllun CBS kemur fram að skimun fyrir Downs-heilkenni, sem og öðrum litningagöllum, sé valkvæð á meðgöngu, en lögum samkvæmt verður að gera verðandi mæðrum grein fyrir því að þau séu í boði. 80 til 85 prósent kvenna velja að fara í slíka skimun, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Frá því að skimanir hófust, láta næstum 100 prósent þeirra kvenna, sem fá jákvæðar niðurstöður um líkur á Downa-heilkenninu, binda endi á meðgönguna.

Fréttmenn CBS komu hingað til lands til að vinna umfjöllunina og töluðu meðal annars við Huldu Hjartardóttur, yfirlækni fæðingarþjónustu á Landspítalanum og Þórdísi Ingadóttur, móður stúlku með Downs-heilkenni.

Hulda sagði að börn með heilkennið fæddust enn á Íslandi. Í sumum tilfellum hefðu mæður þeirra látið skima fyrir heilkenninu en að líkurnar hefðu verið neikvæðar. Þannig var það í tilfelli Þórdísar. Samkvæmt niðurstöðum skimunar voru líkurnar á því að dóttir hennar væri með Downs aðeins 1 á móti 1.600. Niðurstöðurnar eru hins vegar aðeins um 85 prósent nákvæmar. Dóttir Þórdísar, Ágústa, er sjö ára í dag. Sama ár og hún fæddist, árið 2009, fæddust þrjú börn með Downs-heilkennið, sem er óvenju mikið. Yfirleitt fæðast ekki fleiri en tvö börn á ári hverju.

Ekki viss um að svo öflug ráðgjöf sé æskileg

Einnig var rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreininar, í umfjölunni. Hann sagði háa fóstureyðingartíðni fóstra með Downs-heilkenni, endurspegla öfluga genafræðilega ráðgjöf. „Ég er ekki viss um að svo öflug ráðgjöf sé æskileg. Það er verið að hafa áhrif á ákvarðanir sem eru ekki endilega læknisfræðilegar,“ sagði Kári meðal annars í viðtalinu. „Það er ekkert að því að vilja eignast heilbrigð börn, en hve langt við eigum að ganga til að ná því er frekar erfið spurning,“ bætti hann við.

Í umfjöllun CBS kemur fram fleiri lönd en Ísland hafi háa fóstureyðingartíðni þegar kemur að fóstrum með Downs-heilkenni. Í Danmörku er til að mynda 98 prósentum fóstra með heilkennið eytt, 77 prósentum í Frakklandi og samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Bandaríkjunum, frá árinu 1995 til 2011, var 67 prósent fóstra með heilkennið eytt.

Kári er ekki viss um að svo öflug ráðgjöf sé …
Kári er ekki viss um að svo öflug ráðgjöf sé æskileg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert