Stúlkurnar „sviptar sínum rétti“

Mary og Hanyie eru átta og ellefu ára gamlar flóttastúlkur …
Mary og Hanyie eru átta og ellefu ára gamlar flóttastúlkur sem verða sendar úr landi á næstu vikum að öllu óbreyttu. Samsett mynd

„Það er augljóst að fólk sættir sig ekki við svona ákvarðanir,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Í dag voru undirskriftir tæplega 15 þúsund Íslendinga afhentar fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, þar sem þess var krafist að mál afganskra feðgina og nígerískrar fjölskyldu sem vísa á úr landi verði endurskoðuð.

Fjölskyldurnar bíða nú brottvísunar, en Sema segir réttindi stúlknanna tveggja; átta ára gömlu Mary og ellefu ára gömlu Hanyie, hafa verið brotin.

Tvær undirskriftarsafnanir hafa staðið yfir síðustu vikur fyrir fjölskyldurnar. Á vegum Solaris var undirskriftum safnað fyrir afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki, en einnig stóð yfir undirskriftasöfnun fyrir nígerísku hjónin Sunday Iserien og Joy Lucky, og átta ára gamla dóttur þeirra, Mary. Sema og Morgane Priet-Mahéo, aðstandandi nígerísku fjölskyldunnar, afhentu undirskriftirnar í dag, en þær voru alls 14.533 talsins.

Teknar hafa verið ákvarðanir í báðum málum um að senda fjölskyldurnar úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Nígeríska fjölskyldan hefur verið hér á landi í eitt og hálft ár, en hingað komu þau frá Ítalíu þangað sem þau flúðu frá Nígeríu fyrir níu árum. Þar var Joy fórnarlamb mansals, en Sunday hafði upplifað pólitískar ofsóknir í heimalandinu. Mary er nú í skóla í fyrsta skipti á ævinni, en Sunday hefur unnið hjá byggingafyrirtæki í Hafnarfirði síðastliðið eitt og hálft ár. Fjölskyldan kom fram í viðtali við mbl.is í síðasta mánuði.

Afgönsku feðginin hafa verið hér á landi síðan um síðustu jól, en Abrahim er bæklaður eftir bílslys og Hanyie, sem er ellefu ára gömul, er fædd á flótta. Kærunefnd útlendingamála tók fram í úrskurði sínum að feðginin væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Sema og Morgane afhentu fulltrúa dómsmálaráðuneytisins undirskriftirnar í dag.
Sema og Morgane afhentu fulltrúa dómsmálaráðuneytisins undirskriftirnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki tekið tillit til barnanna

„Við undrum okkur á þessum ákvörðunum. Það er ekki verið að taka tillit til þessara barna, sem samkvæmt lögum um útlendinga ber að hafa að leiðarljósi í ákvörðunartöku sem þessari,“ segir Sema og vísar þar í 25. gr. nýrra útlendingalaga um að hagsmunir barns skuli hafðir að leiðarljósi. Þar segir að barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar. Hvorki Hanyie né Mary var hins vegar gefið tækifæri á að tjá sig. „Þær voru sviptar þessum rétti,“ segir Sema.

Segir hún þetta ótrúlegt í ljósi þess að Ísland hafi lögfest mannréttindasáttmála Evrópu, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamálasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá sé Ísland ríki sem segist standa vörð um mannréttindi, réttindi kvenna og velferð barna. „Við minnum líka á skuldbindingu ríkisstjórnarinnar um að mannúðarsjónarmið skuli höfð að leiðarljósi um afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd,“ segir Sema. Hún segir markmiðið með afhendingu undirskriftanna vera að þrýsta á stjórnvöld að veita fjölskyldunum skjól hér á landi og gefa stúlkunum raunverulegan möguleika á framtíð.

Ekkert bíði nema óvissa, óstöðugleiki og hætta

Ásamt undirskriftarlistunum var afhend áskorun til yfirvalda frá stjórn Solaris um að endurskoða ákvarðanir sínar um að vísa barnafjölskyldum í viðkvæmri stöðu úr landi. Hefur umboðsmaður barna sagt í tengslum við málin að réttindi barna séu oft brotin þegar réttur þeirra til að tjá sig er sniðgenginn. Ekki sé hægt að ákvarða um hagsmuni barna eða hafa þá að leiðarljósi ef sjónarmið þeirra eru ekki tekin til greina.

Feðginin Abrahim og Hanyie Maleki.
Feðginin Abrahim og Hanyie Maleki. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Í áskoruninni segir að fjölskyldnanna bíði ekkert nema óvissa, óstöðugleiki og hætta. Abrahim sé ungur og einstæður faðir sem hafi verið á flótta í tvo áratugi. Hann sé bæklaður á öðrum fæti og því hafi Hanyie, sem er fædd á flótta og því ríkisfangslaus, þurft að annast hann síðustu ár. Auk þess glími hún við afleiðingar þess að vera flóttabarn, sem hafi meðal annars þurft að fara á slöngubát yfir Miðjarðarhafið til að bjarga lífi sínu.

Þar segir jafnframt um Sunday, Joy og Mary að þau hafi á lífsleið sinni mátt þola gríðarleg áföll, ofbeldi, fátækt og hótanir. Áður en fjölskyldan hafi komið hingað til lands hafi þau búið á götunni á Ítalíu og betlað sér til matar um tíma. Við meðferð máls þeirra hérlendis hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þau væru í of viðkvæmri stöðu til að vera send aftur til Ítalíu og því skyldu þau fá efnislega meðferð hér. „Af óskiljanlegum ástæðum varð niðurstaðan sú að hér fái þau ekki að vera og munu þau á næstu dögum vera send til Nígeríu, til lands sem dóttir þeirra hefur aldrei búið í.“

Segir í áskoruninni að ljóst sé að ákvarðanirnar endurspegli ekki á nokkurn hátt hagsmuni barnanna.

„Hafa upplifað hluti sem við getum ekki ímyndað okkur“

„Við erum að tala um fjölskyldur sem eru í mjög viðkvæmri stöðu, sem hafa upplifað hluti sem við getum ekki ímyndað okkur,“ segir Sema. Segir hún fjölda undirskrifta sýna að fólk vilji ekki að ákvarðanir sem þessar séu teknar, enda sé hér nóg pláss fyrir fjölskyldurnar og aðrar í svipaðri stöðu. „Það er verið að senda mjög skýr skilaboð. Ísland er ríki sem stendur vörð um mannréttindi, réttindi kvenna og velferð barna og þá skulum við bara gjöra svo vel að sýna það í verki. Þetta er tilvalið tækifæri til þess.“

Fjölskyldan Sunday, Mary og Joy.
Fjölskyldan Sunday, Mary og Joy. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölskyldurnar vita ekki hvenær stendur til að vísa þeim úr landi, og bíða því kvíðnar eftir símtali þar sem þeim verður gefinn stuttur frestur til að taka saman dót sitt áður en til brottvísunar kemur. Þegar blaðamaður mbl.is hitti Sunday, Joy og Mary í júlí var augljóst að hjónin glímdu bæði við afleiðingar þeirra áfalla sem þau hafa lent í. Tveimur vikum síðar leitaði Joy á bráðaþjónustu geðsviðs, en þangað var henni vísað af sálfræðingi. Fékk hún í kjölfarið geðlyf samkvæmt læknisvottorði og mun í framhaldinu halda áfram að hitta lækna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum gögnum sem lögfræðingur fjölskyldunnar sendi til kærunefndar útlendingamála í gær. Auk þess voru sendar inn umsagnir vinkonu Joy og vinnufélaga Sunday máli þeirra til stuðnings. Áður lá fyrir umsögn úr skóla Mary, umsagnir vinnuveitenda Sunday og umsögn bæði frá kirkju og íslenskunámskeiði sem Joy sækir. Öll styðja þau við tengsl þeirra við landið.

Getur náð langt fái hún tækifæri hér á landi

Í umsögn frá vinkonu Joy kemur fram að Mary hafi tekið þátt í gerð myndbands fyrir sunnudagsskóla Þjóðkirkjunnar, sem verði sýnt í öllum kirkjum landsins í vetur, og að öllum líkindum í sjónvarpi líka. „Mary er dásamleg stelpa sem elskar að hitta aðra krakka og leika við þá,“ segir í umsögninni. Þar segir að hún hafi greinilega notið góðs af því að vera í skóla síðasta vetur „og væri hræðilegt að taka það tækifæri af henni aftur.“

„Hún er dugleg og klár stelpa sem getur náð langt í lífinu fái hún tækifærin sem okkur hér á landi finnst svo sjálfsagt að börn fái en ólíklegt er að hún fái ef hún þarf að fara frá okkur,“ segir þar jafnframt. „Gefum þeim framtíð og von. Gefum þeim tækifæri til að búa sér gott líf hér á landi. Gefum þeim tækifæri til að hjálpa okkur að byggja upp betra Ísland.“

Þá eru vinnufélagar Sunday sammála um að gott sé að vinna með honum, og hann sé góður félagi. „Hann var strax ótrúlega áhugasamur í vinnunni og viljugur til að læra nýja hluti, ávalt glaður og kátur,“ skrifaði einn þeirra. „Ég get ekki annað sagt en að ég óski þess innilega að hann fái áframhaldandi dvalartíma á Íslandi, enda drengur góður og góður vinur. Auk þess þarf íslenskt atvinnulíf á duglegum og vinnusömum mönnum eins og honum að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert