Velja ekki allar að fara í fóstureyðingu

Hulda segist vita að CBS hafi talað við íslenska konu …
Hulda segist vita að CBS hafi talað við íslenska konu sem hélt meðgöngu áfram þrátt fyrir að hafa fengið niðurstöður um Downs. mbl.is/Hjörtur

Fullyrðingar í umfjöllun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS um að fóstrum með Downs-heilkenni sé eytt í næstum 100 prósent tilfella hér á landi, eru í raun ekki réttar. 

Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítalans, sem var einn viðmælenda í umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar um Downs-heilkenni hér á landi. „Ég fór yfir þetta allt með fréttamönnum CBS en svo kjósa þeir að birta eitt en ekki annað,“ segir Hulda í samtali við mbl.is.

Það er hins vegar rétt að í þeim tilfellum þar sem kona hefur farið í gegnum allar þær rannsóknir sem í boði eru og niðurstöðurnar sýna með afgerandi hætti að um Downs-heilkenni er að ræða, þá er fóstrum eytt í nánast 100 prósent tilfella. Þær tölur segja þó ekki nema hálfa söguna, að sögn Huldu.

1/3 hluti vill ekki skimun eða frekari rannsóknir

Raunin er sú að um einn þriðji hluti verðandi mæðra kýs að fara annað hvort ekki í 11 til 14 vikna skimun, sem öllum konum er boðið upp á, eða litningarannsókn með sýnatöku úr legvatni eða fylgju, komi aukin hnakkaþykkt í ljós við skimun, sem bent getur til Downs-heilkennis. Þær konur vilja halda meðgöngunni áfram án frekari inngripa þrátt fyrir að líkurnar séu auknar.

„80 til 85 prósent kvenna kjósa að fara í skimunina, þannig það eru 15 til 20 prósent sem fara ekki. Þær konur kæra sig ekki um þessar upplýsingar. Af þeim konum sem fara í skimun og fá niðurstöður sem benda til að það séu auknar líkur, eru um 75 til 80 prósent sem þiggja frekari rannsóknir, en 20 til 25 prósent afþakka. Þar er kominn hópur, sem eftir ráðgjöf og spjall hefur ekki hugsað sér að enda meðgöngu þrátt fyrir að Downs-heilkenni komi fram. Ef þetta er framreiknað má segja að um einn þriðji hluti verðandi mæðra kæri sig ekki um að fara í skimun eða fá niðurstöður, því það myndi ekki leiða til fóstureyðingar.“

Staðreyndin er því sú að ekki allar konur sem fá að vita um auknar líkur á Downs-heilkenni, eða fá staðfestingu á því með litningarannsókn, velja að fara í fóstureyðingu, líkt og umfjöllun CBS gefur til kynna. „Það eru konur sem velja að halda meðgöngunni og ég veit að þau töluðu við eina konu sem valdi að halda áfram, þrátt fyrir að þessi niðurstaða hafi legið fyrir.“

Þeir sem fara í rannsóknir eru búnir að ákveða sig 

Það er upplifun Huldu að þeir foreldrar sem eru búnir að ákveða að fara í fóstureyðingu, verði niðurstaðan sú að Downs-heilkenni sé til staðar, fari í frekari rannsóknir til að fá staðfestingu á litningagallanum. Hinir geri það ekki.

„Einhverjum gætu fundist þetta óhuggulegar tölur en við teljum að ráðgjöfin sé þannig að fólki gefist kostur á því að stíga alls staðar út úr rannsóknarferlinu. Þeir sem fara alla leið og fá niðurstöðurnar, það er fólkið sem myndi fara í fóstureyðingu ef þetta væri niðurstaðan. Það er búið að ákveða sig. Hinir sem myndu ekki fara í fóstureyðingu gera það eru ekki. Þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir að taka þá áhættu sem fylgir legvatnsástungu, til þess eins að vita þetta nokkrum mánuðum fyrr,“ útskýrir Hulda.

Hún segir ástandið á Íslandi svipað og í löndunum í kringum okkur, og bendir á að í Danmörku sé hlutfall fóstra með Downs-heilkenni sem er eytt, um 98 prósent. „Ég hugsa að ef við værum með stærri hóp og fleiri tölur þá væri það svipað hjá okkur. Þetta er ekki alveg 100 prósent. Landið er auðvitað lítið og þetta sveiflast á milli ára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka