„Þegar næstum þriðjungur veltu hverfur úr atvinnugrein getur vart verið um annað en hrun að ræða. Staðan er nú sem og undanfarin ár ákaflega snúin og ljóst að bregðast þarf við ef ekki á illa að fara,“ segir Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.
Nýjar tölur Félags íslenskra bókaútgefenda, sem unnar eru upp úr tölum Hagstofu Íslands, sýna að 11% samdráttur varð í bóksölu árið 2016 miðað við fyrra ár. Alls hefur bóksala þannig dregist saman um 31,32% frá árinu 2008. Veltutölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins þykja ekki beint gefa tilefni til bjartsýni. Þær sýna samdrátt upp á 7,83%.
„Við vöruðum eindregið við neikvæðum áhrifum af hækkun virðisaukaskatts á bækur á sínum tíma, enda er íslensk bókaútgáfa ákaflega viðkvæm grein,“ segir Egill í umfjöllun um bóksöluna í Morgunblaðinu í dag. Virðisaukaskattur á bækur var hækkaður úr 7% í 11% árið 2015.