Formaður Samfylkingarinnar segist enn vera að melta þá hugmynd sem upp er komin innan Samfylkingarinnar að flokkurinn breyti um nafn. Hann er ekki viss um að það sé hlutverk formanns að rjúka til og segja sína skoðun.
Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi flokksins, vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag og kallaði eftir umræðu um málið. „Það er til umræðu hjá okkur í Samfylkingunni að breyta nafninu. Hvað finnst ykkur?“ skrifaði hún.
Flokksmenn og aðrir hafa ekki legið á skoðunum sínum í athugasemdum við færsluna. Margir taka hugmyndinni fagnandi og vilja sjá orðið jafnaðarmaður í nafni flokksins á meðan aðrir segja hana fáránlega, vandræðalega og lykta af örvæntingu. Sjálf segir Eva flokkinn eiga að vera óhræddan við breytingar. Henni þyki nafnið jafnaðarflokkur afskaplega fallegt og það hafi sterka pólitíska skírsotun.
Logi er ekki jafn skoðanaglaður. „Það eru nokkrir klukkutímar síðan ég sá þetta og hef ekki komist að neinni niðurstöðu. Þar fyrir utan er ég ekki viss um að formaður í flokki eigi að rjúka til strax og kveða upp sinn dóm. Mér finnst bara allt í lagi að fólkið í flokknum fái að velta þessu fyrir sér og að það sé góð umræða um málið. Svo mun ég eins og annað fólk leggja eitthvað inn í umræðuna á landsfundi og kjósa eins og mér finnst,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.
Hann sér því ekki fyrir sér að tala fyrir einni hugmynd eða annarri, fyrr en hugsanlega á landsfundi flokksins, þann 27. október næstkomandi. „Ég held jafnvel að það væri ekki gott. Ekki fyrst að hugmyndin kemur frá einstaklingum en ekki forystu flokksins.“
Hann segir hugmyndina koma fram í tengslum við landsfundinn, líkt og margar aðrar hugmyndir. „Við erum með mjög virkt grasrótarlýðræði sem gerir öllum félagsmönnum kleift mögulegt að senda inn tillögur að stefnu- eða lagabreytingum. Eftir því sem ég veit best þá er þetta eins slík tillaga sem verður rædd fram og til baka.“
Þeir sem eru hlynntir breytingum á nafninu segja það undarlegt að nota ekki orðið jafnaðarmaður í nafni flokksins. Logi bendir hins vegar á að því hafi verið bætt inn árið 2013 og að flokkurinn heiti nú Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands. „Það er auðvitað ákveðið sjónarmið sem er vert að hlusta á. Svo eru önnur sjónarmið sem segja eitthvað annað. Það er eins og gengur og svo er það almennra félagsmanna að vega og meta.“
Aðspurður hvort nýtt nafn gæti haft áhrif á fylgi flokksins svarar Logi: „Kjörnir fulltrúar eru í þeirri stöðu að þeir fylgja stefnu flokksins síns. Þá skiptir ekki hvernig lógóð er á litinn eða hvert nafnið er. Hlutverk okkar er það sama og við höldum okkar striki. Þetta er engu að síður skemmtilegt innlegg í umræðuna og verður til þess að skoðanaskipti verða virkari innan okkar hóps og það er til góðs.“
Logi vill ekki gefa það upp hvort hann hyggst bjóða sig fram til formanns á landsfundinum, en hann segist þó vera búinn að gera upp hug sinn. Mun hann tilkynna ákvörðun sína flokksmönnum fljótlega.