Borgarfulltrúinn Marta Guðjónsdóttir kveðst hafa hugleitt að gefa kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Eins og áður hefur komið fram hyggst núverandi oddviti, Halldór Halldórsson, stíga til hliðar að loknu yfirstandandi kjörtímabili.
„Ég mun taka ákvörðun í kjölfar fundar fulltrúaráðs Varðar, segir Marta í samtali við mbl.is en sá fundur fer fram í næstu viku. Vörður samþykkti á stjórnarfundi sínum í síðustu viku að boða til leiðtogakjörs, en áætlað er að kjörið fari fram 21. október.
Leiðtogakjör fer fram með þeim hætti að oddviti listans er kjörinn en síðan stillir uppstillingarnefnd upp í önnur sæti listans. „Ég hef bara heyrt jákvæða hluti varðandi þessa leið en þátttaka í almennum prófkjörum hefur farið minnkandi undanfarin ár,“ segir Marta sem ætlar að virða þá leið sem Vörður mun ákveða.
„Það er nauðsynlegt að það komist á hreint sem fyrst hver leiðir listann.“