„Við viljum sýna að við stöndum með fólkinu í Katalóníu og Barcelona,“ segir Eric Lluent, sem hefur efnt til samstöðufundar á Austurvelli klukkan 17 í dag vegna hryðjuverkanna í Barcelona í gær. Eric er fæddur og uppalinn í borginni, og átti flug þangað frá Íslandi í gær, en eftir að fluginu var aflýst ákvað hann að gera það sem hann gæti til að sýna stuðning.
„Ég keypti flug á síðustu stundu og ætlaði að vera kominn til Barcelona núna. En eftir að fluginu var aflýst og ég var að keyra til baka frá flugvellinum fékk ég þessa hugmynd,“ segir Eric, en hann er búsettur hér á landi. Hér starfar hann sem sjálfstætt starfandi blaðamaður og heldur úti miðlinum El Faro de Reykjavik.
Eric segist þekkja hóp fólks hér á landi frá Barcelona og víðar á Spáni, sem hafi verið sammála um að vilja leggja sitt af mörkum til að sýna Barcelonabúum stuðning. Auk þess vilji margir Íslendingar gera slíkt hið sama. „Borgin er nærri hjarta margra Íslendinga,“ segir hann.
Eric segir fjölskyldumeðlimi sína og vini sem búsettir eru í borginni vera óhulta, en vinur vinar hans hafi hins vegar verið á Römblunni þegar árásin var framin. Eins og fjallað hefur verið um létust 14 manns og yfir hundrað særðust þegar sendiferðabíl var ekið á hóp fólks á verslunargötunni.
„Ramblan er eins og Laugavegurinn,“ segir Eric, en bætir við að þar sé vissulega margfalt fleira fólk en á Laugaveginum. „Það er alltaf gríðarlega mikið af fólki þarna og mikið af ferðamönnum. Þetta er vinsæll staður.“
Mikil skelfing greip um sig á Römblunni í gær og segist Eric hafa heyrt af fólki sem forðaði sér inn í verslanir þar sem það beið í margar klukkustundir í miklum ótta. Ökumaðurinn er enn ófundinn.
Spurður um það hvernig fjölskyldu hans og vinum í borginni líði, segir hann alla vissulega upplifa ótta en mikilvægt sé að leyfa honum ekki að sigra. „Það er sterk tilfinning hjá fólki um að sýna ekki ótta. Þau halda sig auðvitað heima ef lögreglan segir það, en vilja ekki sýna ótta því þá er markmiði árásarmannanna náð.“
Eric segir það hins vegar skína í gegn að Barcelonabúar standa saman og vilja ekki láta ódæðisverk sundra sér. „Það kom mér til dæmis ánægjulega á óvart að fólk er ekki að fókusa á trúarbrögðin. Fólk er ekki að kenna íslam eða aröbum um þessi hryðjuverk. Öll múslímsk trúarfélög í borginni eru að sýna allan sinn stuðning og borgarbúar standa saman,“ segir hann.
Áherslan sé á að stöðva hatursorðræðu, en Eric segir það vera eitt af því sem þjóðir geti gert til að bregðast við hryðjuverkaógninni.
Samstöðufundurinn fer fram á milli klukkan 17 og 19 á Austurvelli, en þar verða ræðuhöld á spænsku og íslensku auk þess sem fórnarlamba árásanna verður minnst með mínútulangri þögn. Einnig verður spilað lag sem er að sögn Erics samstöðulag Katalóníubúa.