Samfylkingin verði Jafnaðarmenn

mynd/Heiðdís

Hópur flokksmanna Samfylkingarinnar mun á næsta landsfundi leggja fram tillögu þess efnis að nafni flokksins verði breytt í Jafnaðarmenn. Auður Alfa Ólafsdóttir og Kjartan Valgarðsson munu leggja tillöguna fram, en á annan tug meðflutningsmanna mun standa að baki henni, þar á meðal Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður flokksins.

„Við viljum breyta nafninu og kenna okkur beint við jöfnuð því við erum jafnaðarmenn og Samfylkingarnafnið er ekki nógu mikil skírskotun í það sem flokkurinn stendur fyrir,“ segir Auður Alfa í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Eins og mbl.is greindi frá í gær vakti Eva H. Bald­urs­dótt­ir, vara­borg­ar­full­trúi flokks­ins, at­hygli á mál­inu á Face­book-síðu sinni í gær og kallaði eft­ir umræðu um málið. „Það er til umræðu hjá okk­ur í Sam­fylk­ing­unni að breyta nafn­inu. Hvað finnst ykk­ur?“ skrifaði hún.

Flokks­menn og aðrir hafa ekki legið á skoðunum sín­um í at­huga­semd­um við færsl­una. Marg­ir taka hug­mynd­inni fagn­andi og vilja sjá orðið jafnaðarmaður í nafni flokks­ins á meðan aðrir segja hana fá­rán­lega, vand­ræðal­ega og lykta af ör­vænt­ingu. Sjálf seg­ir Eva flokk­inn eiga að vera óhrædd­an við breyt­ing­ar. Henni þyki nafnið jafnaðarflokk­ur af­skap­lega fal­legt og það hafi sterka póli­tíska skír­skot­un.

Auður Alfa Ólafsdóttir.
Auður Alfa Ólafsdóttir.

Jafnaðarflokkurinn einnig til umræðu

Auður segir umræður hafa átt sér stað undanfarið um hvaða nafn henti flokknum best, og ýmsar hugmyndir hafi verið á lofti. „Sumir vilja meina að önnur nöfn séu betri og þar hefur helst komið fram nafnið Jafnaðarflokkurinn,“ segir Auður.

Segir hún flutningsmenn tillögunnar hvetja aðra flokksmenn til að koma með breytingartillögur, en aðalatriðið sé að nafninu verði breytt í samræmi við það sem flokkurinn stendur fyrir; jöfnuð.

Tími til kominn að kjósa um nafnið

„Ég held það séu margir á því að við þurfum að breyta nafninu; leggja Samfylkingarnafnið niður og taka upp eitthvað sem tengist jöfnuði,“ segir Auður, og bætir við að hópurinn hafi fengið mjög góð viðbrögð við tillögunni.

Umræða um nafnabreytingu á flokknum er ekki ný af nálinni, og hefur nokkrum sinnum verið rætt að tengja nafn flokksins betur við stefnu hans. Auður segir að því sé tími til kominn til að kjósa um nafnið.

Fylgi flokksins féll í síðustu alþingiskosningum, og er hann aðeins með þrjá þingmenn á Alþingi. En er þessi breyting þá í ykkar huga eitthvað sem getur markað tímamót hjá flokknum? „Já algjörlega. En þetta er ekki tengt því þó það sé örugglega fínn tími til að gera þetta núna. Það er tími til kominn að skerpa á okkar stefnu,“ segir Auður. „Það verður bara spennandi að sjá hvaða nafn verður ofan á, svo lengi sem það tengist jöfnuði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert