Hugmyndir um nýtt nafn ekki nýjar

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður …
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Hugmyndir um að Samfylkingin skipti um nafn eru ekki nýjar af nálinni enda hafa slíkar vangaveltur reglulega komið fram frá því að flokkurinn var stofnaður í kringum síðustu aldamót. Hins vegar hafa þær færst talsvert í aukana hin síðari ár.

Fjallað var um það í fjölmiðlum fyrir helgi að rætt væri innan Samfylkingarinnar um að breyta nafni flokksins. Hópur flokksmanna hyggst leggja fram tillögu á næsta landsfundi Samfylkingarinnar um að nýtt nafn flokksins verði Jafnaðarmenn.

Flokkurinn var upphaflega stofnaður undir nafninu Samfylkingin sem þó var í byrjun fyrst og fremst hugsað sem vinnuheiti. Nafnið var sótt í hugmyndir á síðustu öld um samfylkingu vinstrimanna en Samfylkingin átti einmitt að gegna því hlutverki.

Stofnuð til þess að verða hinn turninn

Þannig var Samfylkingin stofnuð á grunni fjögurra flokka sem starfað höfðu á vinstrivægnum; Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Þjóðvaka og Kvennalistans. Um sama leyti stofnaði hópur vinstrimanna einnig Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samfylkingin átti að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum og mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og hlaut flokkurinn lengi vel ágætt brautargengi og fékk þannig á bilinu 26,8%-31% fylgi í fyrstu fjórum þingkosningunum sem hann tók þátt í.

Hins vegar fór að halla undan fæti eftir að Samfylkingin myndaði ríkisstjórn með VG árið 2009 og í þingkosningunum 2013 hlaut flokkurinn aðeins 12,8% fylgi. Fylgið varð síðan enn lægra í kosningunum síðasta haust þegar það fór niður í 5,7%.

Breytt nafn ætti ekki að vera fyrirstaða

Fullt nafn Samfylkingarinnar í dag er Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Síðari hlutanum var bætt við nafnið á landsfundi flokksins árið 2013. Var það meðal annars að frumkvæði þáverandi formanns hans Jóhönnu Sigurðardóttur.

Jóhanna hafði áður sagt í ræðu á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í lok maí 2011 að hópar fólks innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ættu samleið með Samfylkingunni og að breytt nafn eða annað ætti ekki að standa í vegi þess.

Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þá lagði Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar, til í maí á síðasta ári í aðdraganda landsfundar flokksins að nafni hans yrði breytt í Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Ekki varð hins vegar af því.

Tengst umræðu um slakt fylgi flokksins

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og þáverandi formannsframbjóðandi, hafði nokkru áður kallað eftir því að stofnuð yrði ný hreyfing á grunni flokksins. Nafnið væri ekki aðalatriðið heldur það sem hreyfingin stæði fyrir.

Hugmyndir um breytt nafn Samfylkingarinnar hafa jafnan tengst umræðum um slakt fylgi og verið viðbrögð við því en flokkurinn, sem átti að verða samfylking vinstrimanna og skora Sjálfstæðisflokkinn á hólm, mælist í dag með um 10% fylgi.

Hvort breytt nafn Samfylkingarinnar verði til þess að fylgi flokksins aukist verður hins vegar að koma í ljós komi til slíkrar breytingar. 

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Magnús Orri Schram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert