Tvær deildir á tveimur árum

Liðsmenn Gnúpverja hafa æft af kappi í sumar, þ. á …
Liðsmenn Gnúpverja hafa æft af kappi í sumar, þ. á m. þeir Haukur, Hraunar, Þórir og Bjarki. mbl.is/Árni Sæberg

„Við spilum með hjartanu og hver fyrir annan,“ segir Jóhannes Helgason, einn liðsmanna meistaraflokks Gnúpverja í körfuknattleik, um ótrúlegan uppgang liðsins undanfarin tvö ár.

Síðan körfuboltadeild félagsins var stofnuð árið 2015 hefur liðið farið upp um tvær deildir og mun í ár leika í næstefstu deild. Liðið leikur heimaleiki sína í íþróttahúsi gamla Kennaraháskólans í Reykjavík og greiða liðsmenn fyrir leigu húsnæðisins.

„Við erum ekki með neitt íþróttahús í sveitinni og höfum greitt úr eigin vasa fyrir æfinga- og keppnisaðstöðu hér í bænum. Leikmenn hafa því verið að greiða með þessu, ásamt því reyndar að fá styrki frá fyrirtækjum,“ segir Jóhannes og bætir við að enginn leikmanna fái greitt eða hljóti nokkurs konar hlunnindi fyrir það að spila með liðinu. „Þetta eru mestmegnis sömu leikmenn sem spila með liðinu núna og þegar það var stofnað. Við höfum allir verið að gera þetta okkur til gamans og ekki hlotið neitt fyrir nema ánægjuna, sem gerir þetta auðvitað enn skemmtilegra,“ segir Jóhannes.

Hefur mikla trú á liðinu

Lið Gnúpverja í ár mun að mestu leyti samanstanda af sömu leikmönnum og síðustu ár en Jóhannes telur liðið eiga fullt erindi í fyrstu deild.

„Við teljum okkur eiga góða möguleika í þessari deild. Við erum ekki að mæta hingað til að vera boxpúði fyrir önnur lið í deildinni og hrapa beint aftur niður. Ég hef mikla trú á hópnum enda eru strákar í honum sem eru staðráðnir í að sanna að þeir eigi fullt erindi í efstu deildirnar hér heima,“ segir Jóhannes, sem á þó von á að einhverjir leikmenn bætist í hópinn þegar nær dregur tímabili.

Í sumar hafa liðsmenn Gnúpverja æft af kappi fyrir komandi átök en auk körfuboltaþjálfunar hefur liðið sótt styrktaræfingar í Sporthúsinu í Kópavogi.

„Við höfum alltaf æft þrisvar í viku en ákváðum í ár að bæta við æfingum í Sporthúsinu til þess að styrkja okkur fyrir þessa erfiðu deild. Við erum því búnir að leggja mikið á okkur og vonandi skilar það sér í góðum árangri á vellinum í vetur,“ sagði Jóhannes að lokum.

Ný sending væntanleg

Til að safna fyrir leigu og öðrum tilfallandi kostnaði á komandi tímabili hafa Gnúpverjar brugðið á það ráð að selja ársmiða í formi derhúfna. Þessi nýbreytni hefur vakið mikla athygli og eru derhúfurnar uppseldar. Jóhannes segir að von sé á annarri sendingu á næstunni. „Við pöntuðum 100 húfur sem kostuðu 4.000 krónur hver. Þær seldust því fljótlega upp enda frekar ódýr ársmiði. Það var enn mikill áhugi fyrir þessu og við þurftum því að bregðast við og ákváðum að panta nýja sendingu, sem er væntanleg á næstunni,“ segir Jóhannes, sem vonar að salan muni standa straum af kostnaðinum sem leikmenn þurftu áður að bera. Sala á derhúfunum fer fram á heimasíðu Gnúpverja, gnupnation.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert