Kýldi löggu, rændi bíl og ók á Leifsstöð

Ökumaðurinn ók bíl á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Ökumaðurinn ók bíl á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ljósmynd/Snorri Gíslason

Háskalegri eftirför lögreglu á Suðurnesjum lauk með því að bifreið var ekið inn í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um klukkan sex í dag. Ökumaður bifreiðarinnar hafði nýlega kýlt lögreglumann og rifið konu út úr bifreið hennar sem hann ók síðar á flugstöðina.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ekki viljað tjá sig um málið í samtali við mbl.is en hefur þó staðfest að hún hafi veitt manninum eftirför. Maðurinn var upphaflega á öðrum bíl og virtist ætla að gefast upp þegar hann ók bifreið sinni á umferðarkeilu á hringtorgi við Aðalgötu við Keflavík. Maðurinn var á leiðinni suður frá Reykjavík.

Skemmdir á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar vegna ákeyrslu mannsins í …
Skemmdir á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar vegna ákeyrslu mannsins í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Sjónarvottur segir að maðurinn, sem sé líklega á þrítugsaldri, hafi gengið úr bifreiðinni með hendur upp í loft líkt og hann hygðist gefast upp. Lögregluþjónn hafi gengið til hans, einn síns liðs, og ætlað að færa manninn í járn þegar hann kýldi hann kaldan.

Hljóp hann þá að bílaröðinni, barði á glugga einnar bifreiðarinnar, þar sem kona var ein í bílnum, reif hana út og ók á brott á bílnum. Stuttu síðar þustu lögreglubílar fram hjá á eftir manninum.

Gler brotnaði í komusal flughafnarinnar að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki vegna atviksins og segir Guðni mikla mildi að þetta hafi gerst utan háannatíma í flugstöðinni.

Bifreiðin sem maðurinn skildi eftir þegar hann lét sem hann …
Bifreiðin sem maðurinn skildi eftir þegar hann lét sem hann ætlaði að gefast upp fyrir lögreglu. Í framhaldinu kýldi hann lögregluþjón, reif konu úr nærstaddri bifreið og ók á brott.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert