Starfshópur sem fjallar um öryggis- og aðgengismál við Flugstöð Leifs Eiríkssonar kom til fundar í dag en starfshópnum var komið á laggirnar í kjölfar atviksins í gær þegar ökumaður keyrði í gegnum aðgangshlið og að flugstöðinni þar sem hann klessti bílinn. Mikið mildi var að enginn skyldi slasast.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að tekið sé tillit til aðgengis- og öryggissjónarmiða við hönnun nýbygginga við flugvöllinn en atvikið í gær gefi tilefni til að athuga hvort tilefni sé til aðgerða eins og staðan sé í dag.
Hann segir að lögregla og Isavia eigi stöðugt samtal um öryggismál við flugstöðina en starfshópnum er falið að fara betur yfir stöðuna í dag og skila af sér tillögum. Guðni segir að aðgengi þurfi að vera gott við flugstöðina, bæði fyrir farþega og vöruflutninga, og er það því meðal verkefna starfshópsins að skoða hvernig megi best samþætta öryggi þeirra sem fara um völlinn og gott aðgengi.