Lögregla fékk tilkynningu um að menn bæru vopn inn í húsnæði Tækniskólans við Háteigsveg, sem reyndist ekki vera rétt.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á vettvang rétt fyrir klukkan þrjú í dag, eftir að tilkynning barst frá borgara um að menn væru að bera vopn inn í skólabygginguna.
Sú tilkynning reyndist ekki á rökum reist. „Þarna var einhver misskilningur á ferðinni,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is.
„Tilkynnt var um að verið væri að bera vopn inn í skólann af erlendum aðilum, en það reyndist bara ekki rétt. Sérsveitin fór á staðinn og almenna lögreglan líka,“ segir Guðmundur.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu síðdegis þar sem útskýrt var að tilkynningin hefði snúist um smíðatimbur sem iðnaðarmenn höfðu borið inn í húsnæðið. Um misskilning hefði verið að ræða.
Í tilkynningu lögreglu segir að engin hætta hafi reynst vera á ferðinni og að skoðun lögreglu á málinu sé lokið.