Elín Margrét Böðvarsdóttir
„Ég hef lagt mikla áherslu á, hvað varðar þennan skammtímavanda varðandi kjaraskerðingu, að fókusa á bændur. Ekki milliliðina sem slíka heldur hvernig raunverulega við getum komið til móts við bændur sjálfa,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.
Þorgerður kynnti ríkistjórninni tillögur sínar um hvernig megi bregðast við þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir vegna 35% lækkunar á afurðaverði í haust. Þá er einnig til skoðunar hvernig gera megi bragarbót á kerfinu til lengri tíma.
„Ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína að vinna á því minnisblaði sem ég kynnti fyrir ríkisstjórninni og fá til þess þrjú ráðuneyti, fjármála-, landbúnaðar- og forsætisráðuneyti til að leggjast yfir útfærslu tillögu minnar ásamt fulltrúa bænda,“ segir Þorgerður. Tillögurnar kynnti hún einnig fyrir atvinnuveganefnd Alþingis í dag þar sem málið var tekið fyrir.
„Það er verið að vinna útfærslu, þetta er flókið en við sjáum vonandi til lands síðar í vikunni hvað það varðar,“ segir Þorgerður.