Lok, lok og læs í Heiðmörk

Frá hjólreiðakeppni sem var haldin í Heiðmörk í fyrra.
Frá hjólreiðakeppni sem var haldin í Heiðmörk í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Sett hafa verið upp skilti á jörð Elliðavatns í Heiðmörk þar sem hjólreiðar eru bannaðar á gamla göngustígnum sem þar er staðsettur. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur fengið margar athugasemdir frá hjólreiðafólki vegna ákvörðunarinnar. Formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur kvartar yfir skorti á samráði við hjólreiðafólk.

Skiltin, sem eru átta til tólf talsins, voru sett upp í lok síðustu viku. Ákvörðunin var tekin í vor þegar undirritaður var samningur á milli skógræktarfélagins og Orkuveitunnar sem á jörðina við Elliðavatn þar sem bannið gildir. Leiðin sem um ræðir er norðan við veginn frá Helluvatni upp að reit Ferðafélags Íslands og er nokkurra kílómetra löng.

Samkvæmt samningnum verður nokkrum vegaslóðum einnig lokað fyrir akandi umferð vegna vatnsverndarsjónarmiða.

Göngustígurinn sem hefur verið lokaður hjólreiðafólki.
Göngustígurinn sem hefur verið lokaður hjólreiðafólki. Kort/Skógræktarfélag Reykjavíkur

Fótum sínum fjör að launa

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir að markmiðið með því að banna hjólreiðar um stíginn sé að bæta þar öryggi.

„Að sjálfsögðu eru hjólreiðar mjög velkomnar í Heiðmörk en bara á öðrum stöðum,“ segir Helgi.

Hann nefnir að skógræktarfélagið hafi fengið mjög mikið af kvörtunum frá gangandi vegfarendum í gegnum tíðina. Fólk hafi átt fótum sínum fjör að launa á þröngum stígunum þegar hjólreiðafólk hefur komið þar aðvífandi, oft á töluverðri ferð. Engar tilkynningar hafa borist um slys en skógræktarfélagið vildi bregðast við áður en þau yrðu.  

„Hugsunin hjá okkur er ekki að banna heldur að reyna að stýra. Þeir sem eru gangandi geta gert það í friði og spekt á ákveðnum svæðum og hjólendur geta hjólað á sínum forsendum annars staðar.“

Helgi segir engar frekari aðgerðir fyrirhugaðar í Heiðmörk á þessu ári en gert er ráð fyrir að fara yfir stígakerfið í heild sinni á næstu eina til tveimur árum. Hann bætir við að vilji sé fyrir því að bæta þá hjólastíga sem fyrir eru og bæta við fleirum, bæði á þessu svæði sem og annars staðar. Slíkt verði gert í samráði við hjólreiðaklúbba.

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.
Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Erfitt að gera greinarmun

Að sögn Helga hafa athugasemdir komið frá hjólreiðafólki vegna bannsins en skilningur á því hefur einnig verið fyrir hendi. Einhverjir hafa kvartað yfir því að geta ekki framvegis hjólað um stíginn í rólegheitum með börnunum sínum en erfitt sé fyrir skógræktarfélagið að gera greinarmun á slíkum hjólreiðum og öðrum þar sem hraðinn er meiri. „Það er ekkert óeðlilegt að það séu ekki allir sáttir.“

Hann greinir frá því að hjólreiðar hafi í raun aldrei verið leyfðar á gamla göngustígnum. Hann hafi alltaf verið göngustígur en ekki merktur sem bannaður hjólreiðafólki og því hafi það hjólað á honum. Jafnframt segir hann ekkert því til fyrirstöðu að hjólreiðamót verði áfram haldin á gamla stígnum.

Fólk á gangi og hlaupum um Heiðmörk síðasta haust.
Fólk á gangi og hlaupum um Heiðmörk síðasta haust. mbl.is/Golli

Kom flatt upp á formann

Bjarni Már Gylfason, formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur, segir að ákvörðunin um bannið hafi komið flatt upp á sig. Hann fékk símtal frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur á föstudaginn þar sem ýjað var að einhvers konar samtali við hjólreiðasamfélagið vegna notkunarinnar á svæðinu.

„Ég tók vel í það og ætlaði að beita mér fyrir því að hóa þeim saman sem geta tekið þátt í því. Svo eiginlega daginn eftir kemur þetta allt saman upp. Þetta kom svolítið flatt upp á mig og var ekki í samræmi við þetta spjall sem ég átti við framkvæmdastjóra skógræktarfélagsins,“ segir Bjarni Már.

Hann bætir við að hann hafi heyrt í framkvæmdastjóranum aftur í dag og þá hafi Helgi talað um að hann hafi líkast til ekki verið nógu skýr þegar þeir ræddu saman fyrir helgi.

Bjarni Már Gylfason er ósáttur við ákvörðun Skógræktarfélags Reykjavíkur og …
Bjarni Már Gylfason er ósáttur við ákvörðun Skógræktarfélags Reykjavíkur og Orkuveitunnar.


Ekki rétt að útiloka alla

Bjarni Már segir Heiðmörk vera mjög vinsælt útivistarsvæði meðal hjólreiðamanna, þetta sé verðmætt svæði sem skipti hjólreiðamenn miklu máli. Stór hluti þeirra sem hjóli um svæðið sé venjulegt fólk sem fari hægt yfir. „Það hafa verið dæmi um að menn hafa verið að hjóla mjög greitt og óvarlega og það getur skapast hætta en það er kannski ekki rétt að útiloka alla hjólreiðamenn frá svæðinu,“ segir hann og nefnir fjölskyldufólk á hjólum með börnin sín sem dæmi. Frekar hefði hann viljað sjá tilmæli frá skógræktarfélaginu um að menn hjóluðu hægar þar um áður en farið hefði verið í þessar aðgerðir.

„Það eru hjólasvæði úti um allt. Við hjólum í Öskjuhlíð, Vífilsstaðahlíð, við Hvaleyrarvatn og Rauðavatn og alls staðar gengur þetta nokkuð vel. Það skýtur skökku við að taka einhliða ákvörðun um að loka þessu svæði fyrir hjólreiðafólki.“

Nýlegt upplýsingaskilti um Heiðmörk.
Nýlegt upplýsingaskilti um Heiðmörk. mbl.is/Eggert

Aðgengilegasta svæðið í Heiðmörk

Hann segir svæðið í Heiðmörk þar sem hjólreiðar hafa verið bannaðar eitt af mörgum hjólreiðasvæðum þar. Það sé aftur á móti það stærsta og aðgengilegasta fyrir hjólreiðamenn og henti mjög vel breiðum hópi þeirra sem stundar þessa tegund útivistar.

Bjarni Már kveðst ekki kannast við að hjólreiðasvæði sem þessu hafi nokkurs staðar verið lokað á þennan hátt. Helst man hann eftir takmörkunum í þjóðgörðunum Jökulsárgljúfri og Skaftafelli. „Það er bara lok, lok og læs, farið þið eitthvað annað,“ segir hann en tekur samt fram að hann geri ekki lítið úr því að skerpa þurfi á reglum um notkun göngustíga í Heiðmörk. Samráð við hjólreiðafólk hafi samt vantað tilfinnanlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert