„Menn eru svolítið örvæntingarfullir“

Nafnabreyting Samfylkingarinnar stafar af leit eftir hjálp vegna efasemda um …
Nafnabreyting Samfylkingarinnar stafar af leit eftir hjálp vegna efasemda um framtíð flokksins samkvæmt stjórnmálafræðingi. Hins vegar telur hún að nýtt nafn eitt og sér mun ekki hafa miklar breytingar í för með sér. ljósmynd/Heiðdís

Nafnabreytingar Samfylkingarinnar eru ekki nýjar af nálinni heldur hafa verið viðloðandi flokkinn í nokkur ár. Nýlegar umræður þess efnis gefa til kynna nýtt stig örvæntingar til þess að koma flokknum inn í umræður á ný en síðastliðin ár hefur fylgi hans minnkað töluvert.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur sagði í samtali við mbl.is að hún telji ólíklegt að nýtt nafn muni bera árangur í næstu kosningum. „Nafnabreyting ein og sér segir kjósendum ekki neitt,“ segir hún. Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku þá bætti Samfylkingin aftan við nafn flokksins árið 2013 og heitir nú Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Hún segir að þá hafi verið svipuð umræða og er nú í gangi um að nafn flokksins eigi að vera lýsandi og að ungt fólk geti áttað sig á fyrir hvað flokkurinn stæði. En síðan þá hefur fylgi flokksins farið niður og því skilaði sú nafnabreyting ekki miklu.

„Það hefur líka borið á því að traustir og góðir stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafi talað um að erindi hennar væri í raun lokið,“ segir hún og jafnvel talað um að leggja eigi flokkinn af. Vill hún meina að nafnabreytingin sé angi af þeirri umræðu um að nýtt nafn muni hjálpa þeim.

Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta virkar eins og örvæntingarfull leið til þess að blása mönnum baráttuanda í brjóst,“ segir Stefanía en skiptar skoðanir eru um framtíð flokksins jafnvel meðal dyggustu stuðningsmanna hans.

Nýtt nafn mun ekki breyta neinu fyrir kosningar

Væntanleg breyting kemur í aðdraganda sveitastjórnakosninga þar sem Samfylkingin er þekkt vörumerki. Stefanía segir að það sé margt annað sem huga þarf að en nafn flokks og að nýtt nafn muni ekki breyta neinu fyrir kosningarnar.

„Fólk er að missa trúna á erindi Samfylkingarinnar og telur að það þurfi einhvern vendipunkt, að gera eitthvað annað,“ segir hún en þar dugar nafnabreyting ekki til heldur þurfi að huga að stjórn flokksins, stefnumála hans og hvernig þau eru borin á borð.

Jafnaðarmenn í krísu um allan heim 

Vandi jafnaðarmanna er þess utan ekki bundinn við Ísland heldur virðast ófáir jafnaðarmannaflokkar eiga í erfiðleikum í Evrópu. Stefanía segir það tengjast því að jafnaðarmannaflokkar eru víða taldir tengjast kerfinu sjálfu frekar en kjósendum.

Til að nefna má sjá á Norðurlöndunum, í Frakklandi og Bandaríkjunum að fylgi verkamannaflokka hefur verið að færast yfir til íhaldssamra flokka. Menn sjá ekki lengur mun á jafnaðarmannaflokkum og öðrum flokkum. „Svo koma svona nýir flokkar sem halda því fram að þeir geti breytt hlutunum,“ segir Stefanía.

„Menn eru svolítið örvæntingarfullir“

Stefanía er ekki viss hvort að nafnabreyting Samfylkingarinnar fari í gegn en hún segir það fara eftir stemningu innan flokksins. „En þetta ber vitni um að menn eru svolítið örvæntingarfullir.“ Skiptar skoðanir hafa verið innan flokksins um að breyta nafninu og hefur formaður hans meðal annars sagt að það sé ekki hans hlutverk að segja sína skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert