„Málið er á algjöru frumstigi. Lögreglan mun ekki veita upplýsingar fyrr en það hefur skapast heildstæð mynd af atburðunum,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um málið sem kom upp í gær.
Lögregla veitti ökumanninum sem var í annarlegu ástandi eftirför á Reykjanesbrautinni síðdegis í gær. Þegar halda mátti að eftirförinni væri lokið kýldi maðurinn lögregluþjón sem hugðist færa hann í handjárn, hljóp að nærstöddum bíl og tók hann traustataki. Maðurinn verður yfirheyrður í dag.
Búið er að ljúka við bráðabirgðaviðgerðir í flugstöðinni að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, en mikið gler brotnaði þegar maðurinn keyrði bifreið á flugstöðina í gær. Búið er að setja plötu í stað rúðunnar sem brotnaði og inngangurinn stendur opinn.
„Svo verður sett gler síðar í vikunni. Það var brugðist hratt við, þetta er öruggt og í notkun,“ segir Guðni. Þá var sett ný bóma í hliðið sem keyrt var niður við flugstöðina í gær að sögn Guðna og virðist hliðið því alveg komið í lag. „Við fylgjumst áfram með hvort hún sé ekki örugglega í lagi, en hún er alla vega í notkun,“ segir Guðni en flugstöðin átti til varahlutina svo hægt var að skipta um bómu strax í gær.