„Það má ekki byrgja þetta inni“

Sema Erla hefur látið sig mannréttindi flóttafólks og annarra minnihlutahópa …
Sema Erla hefur látið sig mannréttindi flóttafólks og annarra minnihlutahópa varða.

„Ég veit ekki hvað ég hef gert fólki til að eiga þetta skilið,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Sema birti í gær nokkur ummæli sem fólk hefur látið falla í hennar garð í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Finnlandi og á Spáni.

Í ummælunum birtast þau viðhorf að Sema Erla, sem verið hefur ötull talsmaður flóttamanna og fleiri minnihlutahópa, sé vinveitt þeim sem frömdu hryðjuverkin. „Ekki langt þangað til fávitarnir hér með Semu í fararbroddi kalla þetta yfir okkur,“ skrifar einn sem kallar sig Sigurð Ingólfs á Facebook, en líklega er um dulnefni að ræða. Annar gefur sér að Sema vilji fá sökudólginn til Íslands en sá þriðji að hún muni fagna hryðjuverkunum. Enn annar vill að henni verði vísað úr landi, enda sé hún samsek.

„17 ára vinur Semu Erlu“ skrifar Jón Jónsson á Facebook og deilir um leið frétt með mynd af manninum unga sem talið var að hafi verið ökumaður bílsins sem ók inn í hóp fólks á Römblunni í Barcelona á föstudaginn.

Gefa sér að hún sé múslimi

Sema, sem á tyrkneskan föður en er fædd og uppalin á Íslandi, telur að tengsl hennar við Tyrkland, málflutningur vegna málefna flóttamanna og sú staðreynd að hún er kona séu á meðal ástæðna þess að hún verði fyrir andlegu ofbeldi sem þessu. Þá segir hún að svo virðist sem sumt fólk gefi sér að hún sé múslimi, en tekur um leið fram að hún sé bæði skírð og fermd á Íslandi. Og vegna þess að hún sé álitin múslimi styðji hún sjálfkrafa hryðjuverkasamtök.

Hún tilheyri því ýmsum hópum sem rannsóknir sýni að verði helst fyrir barðinu á hatursorðræðu, svo sem konur og fólk af erlendum uppruna.

„Auðvitað fær þetta á mann“

Sema segir við mbl.is að þó um sé að ræða lítinn hóp hafi hún fengið fjölmörg símtöl frá fólki sem finnur henni allt til foráttu. Sumir hringi ítrekað. Verst þyki henni þó þegar fjölskyldu hennar eða vinum sé blandað í málið eða þeim ógnað. „Auðvitað fær þetta á mann. En eins hræðilegt og það er, þá er maður orðinn ýmsu vanur þegar að þessu kemur. Þó að engin manneskja eigi að venjast svona ofbeldi þá getur maður leitt margt af þessu hjá sér. Það koma hins vegar tímabil þar sem verið er að draga fjölskyldu manns inn í þetta. Og það er hræðilegast af öllu,“ segir hún.

„Tilkynnir fólkið til lögreglu“

Hún segist hafa orðið þess áskynja að mörg ummælin spretti fram á lokuðum Facebook-hópum, en segist fá margar ábendingar frá fólki á þeim vefsíðum sem misbýður munnsöfnuðurinn. Hún segist hafa kært sumt af því sem borist hafi til lögreglu og segist ætla að gera lögreglu viðvart í þetta sinn einnig. Beinar og jafnvel ítrekaðar hótanir um ofbeldi líði hún ekki. Henni gremst hins vegar hvað rannsókn mála taki langan tíma og segir sárvanta skýrari lagaumgjörð og vinnureglur þegar kemur að hatursorðræðu á netinu. Þar séu Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandanna. Bagalegt sé að geta ekki leitað verndar.

Segir hatrið eyðileggja umræðuna

Sema segir að fyrst um sinn hafi hún reynt að ræða málin við fólkið sem um ræðir en að það hafi haft þveröfug áhrif. Þess vegna hafi hún einnig farið þá leið að birta ummælin með nöfnum á Facebook. „Það má ekki byrgja þetta inni. Þetta snýst um að skila skömminni til baka.“ Hún bendir á að margt fólk lendi í alls kyns hremmingum á internetinu. „Andlegu ofbeldi er beitt til að brjóta niður sjálfsmynd fólks og rýra sjálfstraust. Það er hættulegt að bregðast ekki við þegar við verðum vitni að svona hlutum. Andlegt ofbeldi er ofbeldi og það verður alltaf að bregðast við. Þetta eyðileggur alla samfélagslega umræðu og er ekki gott fyrir lýðræðisríki eins og það sem við búum í.“

Hún segir á Facebook, þar sem hún deilir skjáskotunum, að þegjandi sitji hún ekki undir því „þegar gungur sem þessar láta sér detta það í hug að bendla mig ítrekað við hryðjuverk, morð og annað ofbeldi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka