„Við erum að reyna að horfa á þetta í stærra samhengi og reyna að koma með langtímalausnir þannig að við séum ekki alltaf að upplifa endurtekið efni,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.
Þorgerður kynnti tillögur sínar um mögulegar lausnir á vanda sauðfjárræktarinnar á fundi atvinnuveganefndar í gær og í ríkisstjórn fyrir helgi. Tillögurnar eru nú í úrvinnslu en gert er ráð fyrir að línur fari að skýrast í næstu viku. „Það er ýmislegt hægt að gera og við skulum bara anda rólega og þetta fer ekkert frá okkur en gömlu leiðirnar, við erum að reyna að sveigja fram hjá þeim,“ segir Þorgerður.
„Við erum í fyrsta lagi að reyna að ná og koma með tillögur sem ráðast að rótum vandans sem er offramleiðsla. Við erum að reyna að takmarka framleiðsluna í fyrsta lagi, við erum í öðru lagi að einblína á það að koma til móts við kjaraskerðingu bænda, þennan skammtíma vanda sem sauðfjárbændur standa tvímælalaust frammi fyrir, við erum að reyna að taka á því saman. Í þriðja lagi erum við að koma með tillögur til lengri tíma, það má nefna hér eins og að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun, meðal annars vöruþróun fyrir íslenskt lambakjöt,“ segir Þorgerður Katrín.
Þá sé verið að skoða þætti á borð við kolefnisjöfnun og aðra jarðræktarstyrki og til skoðunar sé hvernig unnt sé að efla þessa þætti, meðal annars í gegnum búvörusamninginn.
„Síðast en ekki síst þá förum við í það að flýta endurskoðun, þá tillögu frá endurskoðunarnefnd um búvörusamning sem styður við langtímahugsun og áætlanir til að styrkja stöðu sauðfjárræktarinnar og vinna þá með þeim tillögum sem við erum að leggja fyrir,“ segir Þorgerður Katrín.
Ítrekar hún þó að ekki standi til að koma á útflutningsskyldu sem til lengri tíma sé hvorki heppileg fyrir bændur né fyrir neytendur. Þá sé mikil birgðastaða ekki ný af nálinni, í gegnum tíðina hafi birgðir kindakjöts stundum verið jafnmiklar og jafnvel meiri en nú og því þurfi að horfa til langtímalausna.
„En við erum ekki að fara í stórfelld uppkaup á frosnu lambakjöti. Það þarf að leita nýrra leiða til að ná að vinna á birgðastöðunni, meðal annars með því að gera hvað við getum til þess að opna markaði eins og Kína og fleiri þætti. Þannig að í slíkt verður ekki farið, hvorki uppkaup eins og staðan er núna né í útflutningsskyldu,“ segir Þorgerður.
Aðspurð hversu mikið stendur til að fækka í sauðfjárstofninum til að draga úr offramleiðslunni segir Þorgerður að það kunni að vera um 15-20%. „Það fjármagn sem við erum að hugsa núna kannski dugar í kringum 15% en undir eins og við náum þessu markmiði að minnka offramleiðsluna þá opnast líka svigrúm í sjálfum samningnum til þess að gera ýmsa hluti,“ segir Þorgerður Katrín.