Norðurheimskautssvæðið mun gefa eftir

Ísbjörn reynir burðarþol vakar á norðurheimsskautinu.
Ísbjörn reynir burðarþol vakar á norðurheimsskautinu. AFP

Haldi hlýnun jarðar áfram þykir sýnt að mörg vistkerfi norðurheimskautssvæðisins muni um miðja öldina gefa eftir. Svæðið hlýnar nú tvöfalt hraðar en önnur svæði jarðar að jafnaði. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu en hún fjallar um umhverfismál á norðurslóðum.

Fram kemur að loftslagsbreytingar séu ekki eina áskorunin sem samfélög á norðurslóðum standa frammi fyrir. „Leit að jarðefnum og jarðefnaeldsneyti, auknar samgöngur á láði og legi, ásókn í veiðar á norrænum hafsvæðum, staðbundin mengun frá iðnaði og gömlum aflögðum iðnaðarsvæðum, uppbygging innviða, ferðaþjónusta, ágengar tegundir og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika eru allt áskoranir sem tvinnast saman við áhrif loftslagsbreytinga svo heildaráhrifin verða mun meiri en ella,“ segir í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands vegna útgáfu skýrslunnar.

Fram kemur að vistkerfi norðurheimskautssvæðisins haldi í við hlýnun og sinni „vistkerfisþjónustu“ sem samfélög manna á svæðinu geti ekki lifað án. Brýnt sé, auk almennra aðgerða til að vernda umhverfið, að taka á afleiðingum loftslagsbreytinga með því að styðja samfélög við að aðlagast breyttum aðstæðum. Hvatt er til að byggja upp frekari vísindalega þekkingu á orsökum og afleiðingum breytinga á norðurslóðum og styrkja sjálfbæra þróun með fjárfestingu í nýsköpun, innviðum og samvinnu ríkja á svæðinu, eins og það er orðað í tilkynningu Stjórnarráðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert