Tvær leiðir eru taldar ákjósanlegastar fyrir Borgarlínu frá Firði, verslunarmiðstöðinni í Hafnarfirði, um Hafnarfjörð og í átt til Garðabæjar. Þetta kemur fram í skýrslu Mannvits – verkfræðistofu sem unnin er fyrir Hafnarfjarðarbæ og tekin var fyrir í skipulags- og byggingarráði bæjarins fyrr í mánuðinum. Fjórar tillögur um leiðarval voru skoðaðar fyrir þennan legg línunnar en hann mun ferja farþega svipaða leið og strætisvagn númer 1 gerir nú. Allar enda leiðirnar á að fylgja Reykjavíkurvegi, sem síðan verður að Hafnarfjarðarvegi við komuna inn í Garðabæ.
Leiðirnar sem þykja heppilegastar eru annars vegar leið 2A, sem fylgir sömu leið og strætisvagn nr. 1 í dag, upp allan Reykjavíkurveg, og hins vegar leið 2D sem liggur um Lækjargötu upp Reykjanesbraut fram hjá Kaplakrika og þaðan áleiðis eftir Fjarðarhrauni uns hægri beygja er tekin inn Reykjavíkurveg.
Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur hefur unnið að verkefninu, en kom þó ekki að skýrslugerð Mannvits. Hún segir vinnu við Borgarlínuna stutt komna og enn sé unnið að því að koma áætlunum inn í skipulag sveitarfélaganna. Búið er að ákveða staðsetningu helstu stoppistöðva sem tengja saman ólíkar leiðir, en nánari útfærsla sé í höndum sveitarfélaganna. „Við erum að reyna að koma línunum inn í skipulag, en þó þannig að enn sé opið fyrir sveitarfélög að velja nákvæma leið.“
Í skýrslunni kemur fram að helstu umhugsunaratriði við leiðarval séu ferðatími, hversu aðskilin Borgarlínan sé frá almennri umferð, umfang framkvæmda sem þarf til að koma línunni fyrir og hversu margir búi og starfi í göngufæri frá stoppistöðvum.
8.000 íbúar í göngufæri – meiri þjónusta í nágrenni Lækjargötu
Leið 2A um Reykjavíkurveg er fljótlegri, en áætlaður ferðatími milli Fjarðar og Garðabæjar er um 7,2 mínútur, einni og hálfri mínútu styttri en ef leið 2D verður fyrir valinu. Skýrist það meðal annars af því að stoppistöðvar á leiðinni eru einni færri, eða fjórar talsins, og styttir það ferðatíma um hálfa mínútu en fækkar á móti þeim íbúum sem skilgreindir eru í göngufæri frá stoppistöð. Litlu munar þó á leiðunum í þeim efnum, en íbúar í göngufæri við stoppistöð eru um 8.000 hvor leiðin sem valin er. Munurinn er þó töluverður þegar litið er til umfangs verslunar og þjónustu í göngufæri við línuna. Um 405 þúsund fermetrar slíks húsnæðis eru innan 400 metra göngufæris við fyrirhugaðar stoppistöðvar leiðar 2D, en 290 þúsund fermetrar á leið 2A.
Helstu þéttingarsvæði bæjarins eru einnig báðum megin Fjarðarhrauns norðan Flatahrauns. Nýbyggingarsvæðin standa nær Borgarlínu sé leið 2D um Lækjargötu og Fjarðarhraun valin.
Lilja segist ekki hafa kynnt sér nákvæmlega nýútkomna skýrslu Mannvits en hallist þó að því að heppilegra sé að fara Reykjavíkurveginn. „Ég myndi halda að hún væri einfaldari,“ segir hún og bendir á að erfitt geti verið að koma línu fyrir meðfram Lækjargötu, sem liggur við sjó. Í skýrslunni kemur einmitt fram að ekki sé mögulegt að koma fyrir fleiri akreinum við Lækjargötu og fengi Borgarlínan því ekki sérrými nema þrengt yrði að bílaumferð í aðra eða báðar áttir.
Þá stendur leið 2A um Reykjavíkurveginn betur að vígi. Á stærstum hluta er Reykjavíkurvegur minnst 16 metra breiður, að undanskildum kafla milli Arnarhrauns og Lækjargötu þar sem gatan er í stokki og einungis um 12 metra breið. Á stærstum hluta götunnar mætti því koma fyrir tveim akreinum Borgarlínu – einni í hvora átt – en á þrengsta kafla hennar þyrfti ein akrein að duga.