„Mér þykir þessi framganga ríma illa við áherslur Sjálfstæðisflokksins á að treysta beri einstaklingnum og standa vörð um frelsi hans,“ segir Arndís Kristjánsdóttir, formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og stjórnarmaður í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í samtali við mbl.is um hugmyndir um að ekki fari fram prófkjör í höfuðborginni í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna á næsta ári heldur einungis leiðtogaprófkjör og uppstilling þegar kemur að öðrum fulltrúum á framboðslista flokksins.
Tveir aðrir stjórnarmenn í Verði, þeir Eiríkur Ingvarsson og Halldór Ingi Pálsson, hafa ásamt Arndísi gagnrýnt harðlega í blaðaskrifum hvernig staðið hafi verið að afgreiðslu málsins. Fundað verður í fulltrúaráðinu klukkan 17.15 í dag þar sem málið verður rætt. Samkvæmt heimildum mbl.is er búist við hitafundi þar sem hart verði tekist á. Prófkjör hafa gjarnan verið notuð til að velja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins en þau hafa líka verið gagnrýnd. Aðallega þó eftir á ef niðurstaðan hefur ekki þótt ásættanleg að mati einhverra.
„Prófkjör eru ekki gallalaus frekar en lýðræðið sjálft en þau eru engu að síður sú leið sem reynst hefur best þrátt fyrir allt og sem hefur verið reglan í Reykjavík. Þessi hugmynd um leiðtogaprófkjör er algerlega óútfærð og engan veginn ljóst hvernig eigi að framkvæma hana. Hvað verður til að mynda um þann sem verður í öðru sæti eða þriðja? Það er engin reynsla af þessari leið,“ segir Arndís. Við það bætist hvernig staðið hafi verið að því að leggja slíka tillögu fram á stjórnarfundi í Verði 9. ágúst sem sé algerlega óásættanlegt.
Þannig hafi verið boðaður fundur á meðan margir hafi enn verið í sumarfríi en tillagan ekki auglýst í fundarboðinu. Ekki hafi þannig legið fyrir að þetta stóra mál, hvernig valið yrði á framboðslista sjálfstæðismanna í Reykjavík, yrði tekið fyrir. Málið hafi síðan verið keyrt í gegn á þeim fundi í stað þess að fram færi umræða um það og fleiri fundir. Erfitt sé að sjá þörfina á slíkum asa vegna kosninga sem fari ekki fram fyrr en næsta vor. Komið hafi síðan verið í veg fyrir að haldinn yrði framhaldsfundur um málið í stjórninni. Óháð því hvaða leið sé talin heppilegust í þessum efnum séu þessi vinnubrögð fyrir neðan allar hellur.
Eiríkur tekur undir þessa gagnrýni í samtali við mbl.is. „Menn eru á harða hlaupum undan þessu máli. Formaður Varðar hefur ekki haldið vel á þessu máli að mínu mati. Það er alveg klárt að þessari tillögu var laumað inn á dagskrá stjórnarfundarins 9. ágúst. Ég get ekki fullyrt að vitað hafi verið af þessu fyrirfram en það er að minnsta kosti ljóst að tillagan var skrifleg. Þetta ber þannig allt á sér þann brag að hafa verið mjög rækilega úthugsað.“
Eiríkur segist ekkert vera frábitinn leiðtogaprófkjöri en af hans hálfu sé fyrst og fremst um að ræða gagnrýni á vinnubrögðin. Málið snúist þannig aðallega um að staðið sé eðlilega að málum við að taka þessa ákvörðun. Málið sé ennfremur hluti af stærra máli. „Við höfum horft upp á það undanfarin ár að sífellt fámennari klíka hefur viljað fara alls kyns aðrar leiðir en að hleypa hinum almenna flokksmanni að þegar kemur að röðun á framboðslista.“
Tekist hafi undir formennsku Kristínar Edwald í Verði, forvera núverandi formanns Gísla Kr. Björnssonar, að vinna saman að því að taka ákvarðanir þvert á línur og skoðanir. „Fólk einsetti sér einfaldlega að vinna sameiginlega að málum og komast sameiginlega að niðurstöðu. Það voru engin læti eða átök. Þetta finnst mér vera algert lykilatriði.“ Ekki hafi hins vegar tekist vel til við þetta í formennskutíð núverandi formanns ráðsins.