„Við fórum yfir þetta hjá okkur og töldum öll framlög sem við þáðum vera lögum samkvæmt og skiluðum því inn til Ríkisendurskoðunar sem gerði engar athugasemdir við þetta,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Samkvæmt ársreikningi stjórnmálaflokksins sem Ríkisendurskoðun hefur birt námu styrkir Helga Magnússonar, fjárfestis og eins stofnenda flokksins, og félaga sem honum tengjast samtals 2,4 milljónum króna.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, beinir fyrirspurnum fjölmiðla vegna þessa til framkvæmdastjóra flokksins. Þá kveðst Helgi Magnússon í samtali við mbl.is hafa engu við málið að bæta, upplýsingarnar um hvaða aðilar styrktu flokkinn liggi fyrir og beinir fyrirspurnum jafnframt til framkvæmdastjóra eða formanns flokksins.
Í samtali við Rúv í dag segir ríkisendurskoðandi tilefni vera til þess að skoða hvort lög um fjármál stjórnmálaflokka þurfi að skýra betur. Stjórnmálaflokkum er ekki heimilt að þiggja hærri styrki en sem nemur 400.000 krónur á ári frá hverjum aðila en þiggja má 800.000 krónur þegar um stofnframlög er að ræða. Lög um tengda aðila hvað þetta varðar þykja aftur á móti vera flókin.
„Við skiluðum til þeirra ítarlegum upplýsingum um kennitölur allra styrktaraðila og annað slíkt þannig að við stóðum skil á öllum okkar upplýsingum og höfum birt ársreikninginn okkar þannig að það er allt uppi á borðum hjá okkur og höfum ekkert að fela,“ segir Birna.
Bendir hún á að ákvæði laganna um tengda aðila sé flókið og íþyngjandi í framkvæmd og tekur undir með Ríkisendurskoðun að ef til vill sé tilefni til að endurskoða lögin. „Ég var með leiðbeiningar frá Ríkisendurskoðun og við töldum okkur vera að þiggja eingöngu framlög sem væru algjörlega í samræmi við lög og reglur og ef það kemur í ljós að einhver misbrestur er á því þá auðvitað verðum við bara að bregðast við því,“ segir Birna.
„Ríkisendurskoðun hefur yfirfarið reikninginn án athugasemda og við og Ríkisendurskoðun erum sammála um það að þetta ákvæði sé íþyngjandi og illmögulegt í framkvæmd fyrir jafn litlar einingar og stjórnmálaflokkarnir eru og það er full ástæða til að endurskoða það,“ bætir hún við.
„Við viljum hafa allt uppi á borðum og vinna í samræmi við lög, þannig höfum við hagað okkur til þessa, og bregðumst að sjálfsögðu við ef annað kemur í ljós.“