Enn á eftir að ráða fólk til starfa í yfir 100 stöðugildi í leikskólum borgarinnar. Á tveimur vikum hefur tekist að ráða í 24 stöðugildi af þeim 132 sem ómönnuð voru þá. Eftir standa 108 ómönnuð stöðugildi.
Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að í 64 leikskóla borgarinnar vanti 11 deildarstjóra, 66 leikskólakennara og 17 stuðningsfulltrúa.
Í 36 grunnskóla borgarinnar eru átta kennarastöður ómannaðar, tíu stöður stuðningsfulltrúa og sex stöður skólaliða. Stöðugildin eru 25 talsins.
Í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum er óráðið í 114 stöðugildi en það jafngildir 226 starfsmönnum í 50% störf. „Þar af vantar 74 starfsmenn í störf með fötluðum börnum og ungmennum. Til samanburðar var í liðinni viku óráðið í 135 stöðugildi í frístundastarfinu.“
Staðan er áþekk því sem var á sama tíma í fyrra.