Sauðfjárbændur boða til auka-aðalfundar

Landssamband sauðfjárbænda hefur boðað til auka-aðalfundar á föstudaginn vegna þeirrar …
Landssamband sauðfjárbænda hefur boðað til auka-aðalfundar á föstudaginn vegna þeirrar stöðu sem nú blasir við í sauðfjárrækt í landinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Okkur voru kynntar einhverjar lauslegar tillögur, þær eru ekki útfærðar og við erum náttúrlega bara að bíða eftir útfærslunni,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við mbl.is. „Við erum ekki alveg að sjá kannski að þetta taki heildstætt á vandanum en við auðvitað bara bíðum eftir útfærslunni til þess að meta það.“

Oddný Steina segir þungt hljóð vera í bændum yfir stöðunni en að óbreyttu mun afurðaverð lækka um 35% í haust með tilheyrandi tekjuskerðingu til sauðfjárbænda. Landssamtökin hafa boðað til auka-aðalfundar á föstudaginn þar sem farið verður yfir stöðuna og mögulegar lausnir ræddar.

Hún kveðst binda vonir við að útfærðar tillögur yfirvalda muni þá liggja fyrir svo unnt verði að taka þær til skoðunar og umræðu en Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra hefur verið boðið að sitja fundinn.

Oddný Steina Valsdóttir er formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir er formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við verðum alla vegana búin að leggja fram okkar pakka sem verður þá að minnsta kosti til umræðu,“ segir Oddný Steina um dagskrá fundarins á föstudag. „Við auðvitað bara förum dálítið fram á það að það verði komnar útfærðar tillögur til þess að við getum tekið afstöðu til þess.“

Aðspurð hvort hún hafi fengið spurn af því að einhverjir bændur hafi í hyggju að leggja upp laupana kveðst hún ekki vita til þess hvort einhverjir hafi tekið ákvörðun um slíkt. Aftur á móti séu margir bændur að meta og íhuga sína stöðu í samræmi við alvarleika stöðunnar sem nú er uppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert